152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:55]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur fyrir hennar innlegg. Hv. þingmaður kallar eftir meiri og virkari aðkomu þingsins og ég get tekið undir það. Það er æskilegt að þingið hafi aðkomu að þessu samtali eins og málum er háttað í lögum í dag. Við getum tekið betri umræðu um það þegar við endurskoðum lög um sóttvarnir. Ég vil þó benda á að í nefndaviku, eftir að þingið kom aftur saman eftir jólafrí, og í fjárlagaumræðu fyrir jól og milli jóla og nýárs hefur farið fram mjög þétt samtal. Hv. velferðarnefnd hefur beitt sér fyrir aðkomu ráðherra og fjölmargir vísindamenn hafa komið og upplýst nefndina eftir föngum, sem er vel. Nú er þingið farið af stað og hér erum við að ræða skýrslu og það er hluti af þessu samtali sem er svo mikilvægt.

Já, blessunarlega er þessi ómíkron-veira hættuminni og í sögulegu samhengi er það það sem gerist í þróun slíkra faraldra. Það er því ýmislegt sem horfir til betri vegar og staðan er sannarlega allt önnur og betri. Það sem okkur hv. þingmann greinir sérstaklega á um, og ég segi það bara hér og nú, er að frelsið bítur svo illa í skottið á sér í þessu samhengi. Hv. þingmaður dregur það fram, sem er rétt, að það sé frumskylda heilbrigðisyfirvalda að verja líf og heilsu landsmanna. En við megum ekki gleyma því að það er á sama tíma frumskylda að sjá til þess að heilbrigðiskerfið okkar ráði við stöðuna, ráði við umönnun þeirra sjúklinga sem þurfa að leggjast inn. Þegar óvissa er um það hvernig afbrigðið þróast og fjöldi smita er jafn mikill og raun ber vitni verðum við að tryggja — einangrun og sóttkví eru lykilatriði í að halda í við útbreiðslu smita. Þegar þeim fjölgar sem eru í einangrun eða sóttkví geta þeir ekki tekið þátt í starfsemi samfélagsins á meðan, á sama tíma og við erum að hemja útbreiðslu smita. Á Landspítalanum hefur til að mynda vantað allt upp í 200 starfsmenn. Við skulum minna okkur á það líka varðandi umönnun Covid-sjúklinga að margir hverjir verða mjög veikir og þurfa á gjörgæslumeðferð að halda og jafnvel öndunarvél. Þá er álagið tvöfalt miðað við aðra umönnun. Það er mikið lagt á heilbrigðisstarfsfólkið okkar og við verðum að huga að jafnvæginu sem er þarna á milli.