152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:01]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta innlegg og umræðu um börnin okkar og unglingana og ég tek undir hvert orð, við eigum alltaf að huga alveg sérstaklega að þessum hópi. Þegar kemur að bólusetningum er það eins og með allar aðrar bólusetningar að við felum sérfræðingum okkar að sjá um þær og það hefur tekist í sögulegu samhengi afar vel. Þarna erum við með okkar færasta fólk sem tekur ákvarðanir og það gerist ekki nema að undangengnum rannsóknum á lyfjum sem þurfa síðan samþykki Lyfjastofnunar, fyrst í þessu tilviki í Evrópu og svo Lyfjastofnunar hér á landi. Þá þarf sóttvarnalæknir að draga fram mjög skýrt hagsmunamat fyrir ákvörðunum um bólusetningu. Ég hef hér í löngu máli það hagsmunamat sem ég kallaði eftir. Eins er vandasamt þegar farið er með framkvæmd slíkra bólusetninga, kannski sérstaklega umfram aðrar almennar bólusetningar, og ég held að heilsugæslan hafi haldið mjög vel á því máli.

Varðandi síðan þær ákvarðanir sem hafa verið teknar varðandi íþróttir og tómstundastarf og skóla er það einmitt með það í huga, út frá þessu lýðheilsulega samhengi, andlegri og félagslegri líðan barna og unglinga, að við höldum þeim sem mest virkum í íþrótta- og tómstundastarfi og í skólahaldi og það hefur tekist hér á landi afar vel svo eftir er tekið. Síðan erum við að vakta þennan hóp eins og aðra hópa jöfnum höndum og landlæknisembættið tekur reglulega saman upplýsingar um líðan barna. Það er bara mjög mikilvægt þegar við tökum síðan ákvarðanir um það, ef við þurfum að grípa til frekari ráðstafana gagnvart þessum tiltekna hópi. (Forseti hringir.) En ég tek hjartanlega undir hvert einasta orð sem hv. þingmaður segir um börn og unglinga.