152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:04]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér sóttvarnaaðgerðir vegna Covid-19 og ólíkt höfumst við að hér á norðurslóðum miðað við þá sem eru sunnar. Í dag er staðan á Nýja-Sjálandi sú að þar eru 85 smit og á vikutímabili, 7 daga tímabili, er meðaltalið 64. En hér erum við með 1.500 smit. Við erum rúmlega tíu sinnum færri en Nýsjálendingar en samt virðumst við margfalt verr stödd í því að taka á þessum vanda. Það á að hringja alls konar viðvörunarbjöllum, að við skulum vera í þeirri stöðu sem við erum í í dag. En vandamálið er að við erum búin að berjast við þessa veiru í tvö ár og við virðumst alltaf vera nokkurn veginn í sömu sporum, nema það að veiran er að breytast og eins og hefur komið fram er ómíkron-veiran ekki eins skæð. En ég verð bara að segja eins og er að hún er jú kannski minna skæð fyrir suma en hún getur verið mjög skaðleg fyrir marga.

Ég heyrði hæstv. heilbrigðisráðherra segja áðan að taka verði tillit til lífs og heilsu landans en eigum við þá ekki að taka tillit til lífs og heilsu allra? Megum við leyfa okkur endalaust að horfa bara á Covid-19? Ég hef gífurlegar áhyggjur af því fólki sem er á biðlistum eftir alls konar aðgerðum. Þar eru börn en hjá þeim hefur biðlistavandinn stóraukist og það fjölgar dag frá degi. Við erum með fólk sem er að bíða eftir að fá aðstoð hjá geðlæknum og við vitum að það vantar mörg stöðugildi á Landspítalanum. Þau þyrftu að vera 31 en eru ekki nema 22.

Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvert er hans plan til að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að þeir sem þurfa hjálp vegna Covid og eru í þeirri aðstöðu að geta ekki fengið geðheilbrigðisþjónustu, geta ekki fengið þjónustu sem þeir eiga rétt á og eru á biðlistum — hvaða sýn hefur hann fyrir þetta fólk og hvenær telur hann að þetta fólk fái sína þjónustu?