152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:07]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir sitt innlegg. Hann dró fram mælikvarða sem snýr að smittölum og fékk það einhvern veginn út frá smittölunum að við værum að standa okkur eitthvað síður í viðureigninni við þennan faraldur. Ég held að það væri beinlínis hættulegt að gefa það til kynna vegna þess að miðað við fjölmarga mælikvarða þá hefur okkur farnast afar vel í gegnum þennan vandasama tíma. Það er ekki síst að þakka heilbrigðisstarfsfólki, sem hefur tekist á við þetta með okkur, og vísindamönnum. Ef við berum okkur til að mynda saman við Norðurlöndin, þegar kemur að dauðsföllum, þá hefur okkur tekist best upp að sinna okkar sjúklingum og koma í veg fyrir þá vá. Á fjölmargan hátt hefur okkur tekist mjög vel. Þetta er búið að vera erfitt verkefni alveg frá því að þetta byrjaði og það hefur breyst mjög mikið. Þegar kemur að þessari ómíkron-bylgju þá erum við að horfa á mjög sambærilega þróun í öðrum löndum. Maður þarf alltaf að taka tillit til þess á hvaða stað við erum í bylgjunni í samanburði við aðrar þjóðir og taka tillit til þess og skoða síðan hvað það felur í sér í álagi á heilbrigðiskerfið þannig að við tryggjum að heilbrigðiskerfið geti annast þetta verkefni. Þessi róður þyngdist mjög í upphafi faraldurs en vel hefur tekist til hingað til. Samvinnan hefur verið góð, vil ég meina, milli aðila í heilbrigðisþjónustu á landinu, í heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni, og sjálfstætt starfandi geirans sem hefur sýnt feikilega samfélagslega ábyrgð og við höfum samið við um umönnun. Það gefur augaleið að í slíku álagsprófi gefur önnur þjónusta eftir.

Varðandi geðheilbrigðismálin sérstaklega þá höfum við þegar hafið vinnu sem má kannski segja að hafi grundvallast á þeirri stefnumótun sem hófst hér á tímabilinu 2005–2016, með vinnu sem fór fram í þinginu og svo geðheilbrigðisþingi, sem forveri minn stóð að, sem dró fram mjög gagnlegar upplýsingar. (Forseti hringir.) Það er verið að vinna með þessi gögn til að gera enn betur í geðheilbrigðismálum sérstaklega.