152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni. Þetta er mikilvægt eins og öll önnur þjónusta, fíknimeðferð, sem við veitum í heilbrigðisþjónustu, þannig að ég byrji þar sem hv. þingmaður endaði. Hann dregur fram ágreining á milli samningsaðila, Sjúkratrygginga Íslands og SÁÁ, sem eru með samning um að veita þessa tilteknu þjónustu sem er mjög mikilvægur hluti af því að takast á við fíkn og þennan sjúkdóm. Við höfum litið þannig á, og það hefur verið þannig um langa hríð, að SÁÁ, Vogur og stofnanir þeirra hafi veitt mjög mikilvæga meðferð þegar kemur að þessum sjúkdómi. En það hefur komið upp ágreiningur á milli samningsaðila. Það er þannig búið um í lögum um sjúkratryggingar að þegar slíkur ágreiningur kemur upp skuli samningsaðilar leysa úr þeim ágreiningi. Alþingi hefur lagt áherslu á að það sæti ekki endurskoðun ráðherra og ráðherra má hreinlega ekki stíga inn í slík mál. Í ljósi þess hversu mikilvæg þessi meðferð er og á hvaða grunni hún byggir í áratugi, hversu mikilvægur hluti hún er af heilbrigðisþjónustu, bind ég hins vegar miklar vonir við að aðilum takist að leysa úr þessum ágreiningi og draga fram þær upplýsingar sem leysa þessa stöðu. Ég legg áherslu á það.