152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:15]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í upphafi heimsfaraldurs var tekin sú skynsamlega ákvörðun að fylgja sérfræðingum í sóttvarnaaðgerðum. Það hefur reynst okkur vel til þessa að byggja á ráðleggingum sóttvarnalæknis, bestu alþjóðlegu þekkingu um faraldurinn hverju sinni og tölfræðiupplýsingum sem safnað er innan lands. Ég tel það áfram vænlegast til árangurs. Þá vil ég fagna því að við skulum aftur hafa komið á reglulegri umræðu um sóttvarnaráðstafanir hér í þingsal og vil hvetja til þess að fleiri ráðherrar flytji okkur skýrslur eða taki umræður um aðgerðir í heimsfaraldrinum. Það er mikilvægt að rýna til gagns á hverjum tíma.

Þegar við rýnum til gagns er mikilvægt að horfa samt alltaf á meginmarkmiðið sem hefur verið, er og verður að verja líf og heilsu landsmanna og tryggja starfhæft heilbrigðiskerfi. Því hafa aðgerðirnar þessi tvö undangengin ár verið tiltölulega einfaldar, að takmarka samskipti og gæta að smitvörnum. Sóttvarnir og viðbragðið hefur verið samvinnuverkefni þar sem við höfum öll lagst á eitt við að fletja út álagskúrfurnar. Útfærslan hverju sinni hefur svo farið eftir stöðu faraldursins og þar er samanburður við önnur lönd mikilvægur þó að aðgerðir þurfi alltaf að ráðast af upplýsingum um stöðu bylgjunnar hér innan lands, fjölda smitaðra og veikra og þar með talið áhrif á fólk sem starfar í heilbrigðiskerfinu.

Mér finnst líka enn og aftur tilefni til að rifja upp og halda því til haga að í tvö ár höfum við upplifað þá tíma sem ekkert okkar bjóst við, þrátt fyrir að hafa þá vitneskju úr lífvísindunum að við gætum alltaf átt von á heimsfaraldri. En við höfum líka upplifað þessa einstöku tíma og samvinnu alþjóðasamfélagsins, alþjóðavísindasamfélagsins og stjórnmálanna um allan heim, þar sem sett var skýrt markmið um að einhenda sér í þróun bóluefna og fara í samninga og samvinnu um rannsóknir og þróun. Nú erum við orðin mjög vel bólusett þjóð. Hlutfall bólusettra hér á landi er líklega með því hæsta sem þekkist í heiminum, bæði vegna góðs aðgengis að bóluefni og almennrar þátttöku í bólusetningum.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvaða þýðingu það hefur fyrir okkur í þeim ákvörðunum sem við munum þurfa að taka næstu daga. Hins vegar hef ég áhyggjur af þeim þjóðum og heimshlutum sem ekki hafa sama aðgengi að bóluefni. Ég spyr því hvort hæstv. ráðherra geti upplýst mig um alþjóðlega samvinnu um bólusetningar.