152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:19]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir innlegg hennar hér. Hún fór mjög vel yfir hvernig viðbrögð okkar hafa verið og hversu mikilvægt það hefur verið að byggja á traustum stoðum embætta okkar eins og við höfum hagað því í umgjörð okkar, landlækni, sóttvarnalækni, almannavarna, og byggja þannig á traustum stoðum vísindamanna í samvinnu við þá sem hafa verið að byggja upp frá byrjun Covid-göngudeild Landspítalans og svo í samvinnu við heilbrigðiskerfið allt, eftir því sem smit koma upp o.s.frv. Þetta hefur verið afbragðs samvinna. Ég skal alveg viðurkenna að ég er ekki búinn að vera lengi í þessu embætti sem heilbrigðisráðherra en ég vil koma því á framfæri að auðvitað vissum við að þetta væri mikilvægt og birtingarmyndin hefur verið mjög traust. En samvinnan og samtalið sem er daglega og við ráðuneytið og framlag heilbrigðisstarfsfólks og hugarfarið er í raun og veru aðdáunarvert.

Hv. þingmaður kemur inn á sterka stöðu bólusetninga. Það hefur skipt sköpum hér fyrir okkur, það hefur sýnt sig. Og tímasetningarnar skipta líka máli í þessu. Það er einkum tvennt sem blasir við þegar maður rýnir í samanburð við aðrar þjóðir og annað er sterk bólusetningarstaða. Blessunarlega hefur okkur þar af leiðandi tekist að missa þetta ekki út í aðgreiningu á grundvelli bólusetningar þegar við erum að meta þetta allt út frá stjórnarskrá. Það er mjög mikilvægt. Síðan er það Covid-göngudeildin á Landspítalanum. Það er mjög áberandi með allan þann fjölda sem fær þjónustu göngudeildar og kemur daglega og fær lyfjagjöf og svona snemmmeðferðir og fólki forðað frá því að leggjast inn að það hefur alveg skipt sköpum í því að spítalinn hafi ráðið við stöðuna með tæpa mönnun, segjum þetta bara eins og það er. Það er auðvitað engu öðru að þakka en hugviti og útsjónarsemi þeirra sem standa að því á spítalanum og í því samtali sem á sér stað á milli vísindafólksins okkar, sem er augljóslega í fremstu röð í heiminum.