152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:24]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni seinna andsvar. Í fyrra andsvari kom hv. þingmaður inn á alþjóðasamvinnu og að tryggja það að koma bóluefni til heimsbyggðarinnar, sérstaklega þeirra landa sem hafa ekki átt eins greitt aðgengi að bóluefni eða getað keypt það í þeim mæli sem kannski vestrænar þjóðir hafa gert. Við höfum tekið þátt í Evrópusamstarfi að því leyti að koma lyfjum til þessara staða og við munum halda því áfram þannig að umframskammtar komist þangað og nýtist. Ég held að það væri áhugavert að taka saman heildstæðara yfirlit fyrir hv. velferðarnefnd um þá samvinnu og hvernig hún horfir til framtíðar.

Hv. þingmaður kom hér inn á þann styrkleika sem birtist okkur um leið og veikleikar eru afhjúpaðir enda hefur heilbrigðiskerfið sýnt alveg ótrúlegan styrk. Fólk hefur verið að vinna þar undir miklu álagi í langan tíma og við höfum þegar hafið samtalið við forstöðumenn heilbrigðisstofnana um allt land um það hvernig við tökum á þessu, því að þegar þessu lýkur og það léttir á álaginu þá koma oft upp eftirköst sem snúa að kulnun og spennufalli, og einnig að leggja drög að samræmdum aðgerðum um allt land fyrir heilbrigðisstarfsfólk. En ég vil leggja áherslu á þessa samfélagslegu ábyrgð, sem birtist núna í samvinnu og umönnun, að ráða við stöðuna, það er það samspil sem við þurfum að sjá fram veginn. (Forseti hringir.) Við þurfum að skilgreina mjög vel það hlutverk spítalans að sinna þessu mikilvæga vísindastarfi sem hefur gefið eftir, hann geti haldið áfram sérgreinaþjónustunni, (Forseti hringir.) þ.e. sérgreinalæknar, menntun og þjálfun starfsfólks í þessum flóknari aðgerðum, skurðstofurnar, gjörgæslan og bráðamóttakan — þannig að (Forseti hringir.) göngudeildarþjónustan færist kannski frá spítalanum. Þetta er samspil sem ég sé að geti orðið frekari styrkur.

(Forseti (JSkúl): Forseti biður ræðumenn að virða tímamörk. )