152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:39]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil bera fram þrjár spurningar til hæstv. heilbrigðisráðherra. Sú fyrsta: Ég vil spyrja ráðherrann hvort eða hvað hann hyggist gera til að mæta þeim mikla aðstöðumun sem landsmenn búa við eftir búsetu varðandi sýnatökur vegna mögulegs Covid-smits. Á fáum heilsugæslustöðvum eða héruðum er til að mynda boðið upp á hraðpróf, hvað þá PCR-próf, um helgar, t.d. á stórum þéttbýlisstöðum eins og Sauðárkróki og Blönduósi sem verða að sækja til Akureyrar. Fleiri mætti nefna sem eiga enn torsóttari og lengri leið að fara. Til að fækka smitum og komast fyrir þau er mikilvægt að þau séu greind sem fyrst. Nú þegar rýmka á reglur frekar og stytta tímann sem fólk heldur sig til hlés er þetta enn mikilvægara.

Önnur spurning: Fyrir fólk sem er að glíma við krabbamein skipta vikur og jafnvel dagar máli fyrir farsælan bata. Þar á ekki síður við að fá sem fyrst greiningu til að komast í viðeigandi meðferð. Hvernig metur ráðherra stöðuna gagnvart krabbameinssjúklingum sem hafa þurft að sæta frestun aðgerða vegna þess hve Landspítali og starfsfólk hans er undirlagt af því að takast á við afleiðingar Covid-smita? Eru á borðinu aðgerðir til að tryggja betur stöðu krabbameinsveikra, ekki síst ef faraldurinn færist enn í aukana eða dregst frekar á langinn, ég tala nú ekki um ef þeim sem tala hér fyrir mestu tilslökunum í sóttvarnaaðgerðum yrði að ósk sinni?

Þriðja spurning: Á meðal framlínufólks okkar í faraldrinum er starfsfólk grunn- og leikskóla sem hefur unnið lengi við afar erfiðar aðstæður en ekki alltaf fengið þá viðurkenningu sem það á skilið fyrir störf sín. Hyggst heilbrigðisráðherra ganga enn frekar í það ásamt mennta- og barnamálaráðherra að eiga frekara og beinna samtal við fulltrúa þessa fólks um aðstæður þess, áskoranir og úrlausnarefni, og sömuleiðis við íþróttahreyfinguna?