152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Jónssyni fyrir spurningarnar. Fyrsta spurningin sneri að þeim aðstöðumun sem er á landsbyggðinni gagnvart sýnatökum og það er rétt sem hv. þingmaður dregur hér fram að það getur verið langt á milli og það þarf að huga að því og bregðast við, skulum við segja. Það hefur líka reynt á mönnun á heilbrigðisstofnunum víðs vegar um landið þegar kemur að sýnatökum og heilsugæsluhluta þessara stofnana. Þær hafa brugðið á það ráð til að bregðast við þessu að semja við einkaaðila um að sinna sýnatökum með þeim og geta þá fært sig á milli staða til að bregðast við þegar slík staða kemur upp. Ég held að það hafi tekist bara nokkuð vel, alla vega í okkar síðasta samtali, en það hefur reynt á þennan þátt, það er rétt sem hv. þingmaður segir.

Varðandi krabbameinsmeðferðir, greiningu og frestun aðgerða þá get ég ekki fullyrt um þá stöðu, ég myndi bara þurfa að kanna hver staðan er raunverulega á því. Samkvæmt minni bestu vitund hefur spítalanum tekist allvel að halda í horfinu en þetta er auðvitað mikið álag og það er ýmislegt sem lætur undan. En til að vera með einhverjar fullyrðingar þess efnis þá þyrfti ég að kanna stöðuna á þessum tiltekna þætti áður en ég fer að segja of mikið um það.

Síðan um þetta virka samtal og álagið á skólana. Það er rétt sem hv. þingmaður kemur inn á, það hefur verið aukaálag núna í þessari miklu útbreiðslu smita á ýmiss konar starfsemi, ekki síst á skólana og auðvitað í gegnum allan faraldurinn, álag á kennara og leikskólana ekki síst sem hafa haft opið allan tímann. Ég hvatti til þess og veit að það hefur verið virkt samtal allan tímann og núna daglegt á milli skólamálaráðherra og skólayfirvalda. Það er margt í gegnum þennan faraldur sem hefur verið mjög jákvætt þegar kemur að því að halda uppi virku samtali og vinna þetta lausnamiðað og það hefur reynt mjög á skólana í þeim efnum.