152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:59]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem hér á sér stað. Hæstv. ráðherra. Þegar einstaklingur velur að gefa eftir frelsi fyrir aukið öryggi þá er hætta á að hann tapi hvoru tveggja. Við erum nú, tæpum tveimur árum eftir að Covid-19 lét fyrst á sér kræla, á þeim stað að við verðum að stíga til baka, hætta að nálgast mál eins og gert var þegar minni þekking var á veirunni, hætta að takmarka borgaraleg réttindi landsmanna, hætta að stórskaða rekstrarforsendur fyrirtækja. Þetta segir ég nú þegar fleiri liggja á spítala með Covid en vegna Covid. Þegar fyrsta ómíkron-afbrigði Covid-19 greindist hér á landi 1. desember sl. voru þegar komnar fram upplýsingar þess efnis að afbrigðið væri veikara en þau sem á undan komu. Síðan eru liðnar sjö vikur og heimurinn allur hefur áttað sig á því að afbrigðið leiðir af sér mun minni veikindi og þjóðir því farnar að stíga til baka hvað sóttvarnaþvinganir varðar. Stjórnvöld á Íslandi eru samt enn að velta því fyrir sér hvort þetta geti verið raunin, nú síðast á mánudaginn þegar sóttvarnalæknir sagðist ekki geta sagt til um hversu alvarlegt ómíkron-afbrigðið væri. Tregi stjórnvalda til að gefa eftir það ægivald sem þau tóku sér fyrir hartnær tveimur árum er mikill en við erum komin á þann stað að nú er mál að linni. Í þessu samhengi vil ég fá að leggja nokkrar spurningar fyrir hæstv. ráðherra, hef þær tvær í fyrri umferð og bæti við í þeirri seinni.

Í fyrsta lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hugsanlegt sé að fjöldi fólks hafi verið sendur í einangrun að ósekju. Með skimun ferðamanna á landamærum var komist að því að stór hluti þeirra sem greindust smitaðir voru ekki með virkt smit. Virtust tölur sem voru aðgengilegar á upplýsingasíðu stjórnvalda, en eru þar reyndar ekki lengur, benda til að þetta ætti við um fjórðung þeirra sem greindust á landamærunum. Við skimanir innan lands hefur ekki verið gerður greinarmunur á virkum og óvirkum smitum heldur hafa allir verið settir undir sama hatt og allir sem greindir eru smitaðir settur í einangrun. Hví hefur þessari vísindalegu nálgun ekki verið beitt innan lands heldur bara á landamærunum? Sé hlutfallið það sama innan lands og á landamærunum þá má áætla að í dag séu á fjórða þúsund manns í einangrun án þess að vera með virkt smit. Ofan á allt annað er það auðvitað fullkomlega galið sé það raunin. Hæstv. ráðherra: Getur verið að á fjórða þúsund manns séu í einangrun án þess að vera með virkt smit?

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra út í fyrirkomulagið um smitgát. Í gær var tilkynnt um að reglum um smitgát hefði verið breytt þannig að krafa um sýnatöku er felld niður en í staðinn var tímabil smitgátar lengt úr fimm dögum í sjö. Í frétt á vef Stjórnarráðsins segir að í minnisblaði sóttvarnalæknis til ráðherra hafi komið fram að af tæpum 16.500 einstaklingum sem sættu smitgát á fyrstu 16 dögum þessa árs greindust aðeins um 1% með Covid-smit í kjölfar prófs. Stór hluti þess hóps var börn á skólaaldri. (Forseti hringir.) Ég spyr því ráðherrann: Er ráðherra ekki alveg að gleyma sjónarmiðum um meðalhóf með því að viðhalda smitgátinni? (Forseti hringir.) Það verður að hafa í huga að smitgát hefur töluverð áhrif á börn og unglinga því þau mega t.d. ekki stunda íþróttir og félagsstarf á meðan þau eru í smitgát.