152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:03]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni mjög gott innlegg. Við erum sannarlega á þeim stað hér tveimur árum síðar með nýjar upplýsingar sem við liggjum í raun og veru yfir núna daglega og við erum að safna gögnum. Til að mynda hefur það komið fram að verið er að meta meðallegutíma sem skiptir miklu máli vegna þess að á þessum tímapunkti er enginn að setja á takmarkanir. Öll myndum við vilja aflétta. Við skulum alveg bara hafa það á tæru. Við göngum út frá því. Við viljum fá samfélagið okkar í fyrri takt. Það er þess vegna sem við og okkar helstu vísindamenn erum nú að horfa til þess hvernig þetta er lagskipt eftir aldri og hvernig meðallegutími er að virka.

Ég þekki þessa umræðu á spítalanum um hvort fólk væri að smitast inni. Auðvitað þurfa tölurnar að vera skýrar en eftir sem áður, ef þú ert smitaðir af þessum sjúkdómi inni á spítalanum þá þarftu sérstaka umönnun. Það er bara tvöfalt álag á starfsmenn. Þannig er það. Helsta ástæðan fyrir því að við getum ekki tekið þessi skref mjög hratt núna í afléttingum, t.d. að aflétta öllum samkomutakmörkunum eða eitthvað því um líkt og segja bara: Þeir sem veikjast, þeir þurfa bara að leggjast inn og við tökum bara á móti þeim, er sú staða sem er uppi að við erum með hátt í 200 starfsmenn á spítalanum sem eru í einangrun og geta ekki sinnt starfinu. Þeir sem eru í sóttkví geta verið í vinnusóttkví og það er búið að létta aðeins á því og það er reyndar búið að létta á einangruninni. En þetta er staðan. Þetta höfum við náð að manna með fjölbreyttum lausnum eins og ég hef margoft farið yfir. Um leið og við náum tökum á þessari stöðu og náum fólki til baka og getum aflétt neyðarstigi á spítalanum og aflétt þar á undan neyðarstigi almannavarna þá getum við samhliða, eins og hv. þingmaður dró hér fram, dregið úr þessu, byggt á raungögnum um þetta 1% sem hv. þingmaður kom hér inn á. Þá getum við slakað á skimunum sem hafa verið mjög þungar, sérstaklega fyrir börn og unglinga vegna þess að fyrir börnin hefur það tekið fimm sinnum lengri tíma. Ég hef trú á því að þær tölur sem eru að birtast okkur muni gera okkur kleift í skynsamlegum skrefum að aflétta og ná jafnvægi og ná tökum á stöðunni. (Forseti hringir.) Ég horfi þannig á þetta í dag. Það er birtingarmyndin. Þessu til viðbótar verður mjög fróðlegt að sjá niðurstöður úr rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar til að sjá hversu útbreitt þetta raunverulega er.