152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:07]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið, en það hefði verið ágætt hefði hann svarað spurningunum, því að hæstv. ráðherra talaði í þrjár mínútur um allt annað en hann var spurður um. Ég ætla því að leyfa mér að ítreka spurningarnar og minna ráðherrann á að svara; hvort það geti verið að á fjórða þúsund manns séu í einangrun án þess að vera með virkt smit. Hvers vegna hefur þetta verið hanterað hvort með sínum hættinum á landamærum og innan lands? Og bara af því að hæstv. ráðherra kom inn á að 200 starfsmenn spítalans væru í einangrun, ef þessi hlutföll eru sambærileg meðal starfsmanna spítalans og voru á landamærunum væru 50 sem væri hægt að sleppa innan dagsins úr þeirri einangrun sem viðkomandi er í. Síðan kom hæstv. ráðherra ekkert inn á það sem ég spurði um varðandi smitgátarfyrirkomulagið, hvort það sé ekki íþyngjandi þannig að það sé óþarft og að ráðherrann hafi gleymt að gæta þar meðalhófs.

Þessu til viðbótar vil ég fá að bæta við spurningu er snýr að því að ráðherra hefur orðið tíðrætt um að hann beri þá frumskyldu að verja líf og heilsu. Hvernig metur ráðherrann heildaráhrif aðgerða sinna með tilliti til þeirra sem verða fyrir afleiddum áhrifum af aðgerðum stjórnvalda? Eru áhrif á líf og andlega heilsu landsmanna tekin inn í myndina? Hvernig er það gert og hvar eru þau gögn aðgengileg? Eru áhrif á líf og heilsu þeirra sem verða fyrir því að mikilvægum lífsbætandi aðgerðum er frestað metin inn í myndina? Hvernig er það gert og hvar liggja þau gögn? Eru andleg áhrif á börn og unglinga vegna takmarkana tekin inn í myndina? Hvernig er það gert og hvar liggja þau gögn? Það skiptir máli, sérstaklega í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur hér í óundirbúinni fyrirspurn er snýr að rannsóknarskyldu ráðherra, að það liggi fyrir hvernig þessar ákvarðanir eru teknar, hvernig þær eru rökstuddar og að þingheimur geti skoðað og gagnrýnt þau plögg sem liggja þar að baki.