152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:09]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessar spurningar. Fyrst vil ég almennt segja um rannsóknarskylduna — já, við metum þetta í okkar ráðuneyti, þegar við fáum tillögur sóttvarnalæknis, út frá jafnræði og meðalhófi, á hvaða grunni tillögurnar byggja og hvaða árangri þær eiga að ná. Það er gert jöfnum höndum eftir því sem ákvarðanir eru teknar.

Varðandi þá tölfræði sem hv. þingmaður kemur inn á, að fjórðungur sé ekki með virkt smit, þá er hv. þingmaður væntanlega að vísa í að prófin séu ekki öruggari en það. (Gripið fram í.) — Já, þá skil ég hv. þingmann og þá þarf ég að kalla eftir þeim tölum. Ég er ekki með þær tiltækar hér, get ekki staðfest að það sé akkúrat fjórðungurinn sem þannig birtist, ég geri ráð fyrir að þær tölur séu til.

Varðandi léttingu á sóttkví, breytingu á reglugerð um sóttkví og einangrun, þá voru þær ákvarðanir einmitt teknar með tilliti til meðalhófs og til að létta sérstaklega á sýnatökum barna og unglinga, það var gert. Varðandi tiltekna hópa og andleg áhrif, gagnvart börnum og unglingum, þá er haldið sérstaklega utan um það af hálfu landlæknis og síðan eru hópar í félagsmálaráðuneytinu og heilbrigðisráðuneytinu sem hafa vaktað stöðuna allan tímann. Það er mjög mikilvægt að við nýtum þau gögn áfram til að fara í skynsamlegar ráðstafanir byggðar á niðurstöðum úr þeirri vöktun. Auðvitað höfum við líka í gegnum allan tímann brugðist við með fjáraukalagafrumvörpum þar sem við höfum jöfnum höndum reynt að bregðast við stöðunni eins og hún hefur verið uppi hverju sinni.