152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:11]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil bara þakka fyrir þessa umræðu hérna og þær fjölmörgu spurningar, vangaveltur og sjónarmið sem hafa komið fram. Mér finnst umræðan hafa verið á þeim nótum að straumhvörf séu að verða í baráttu okkar í þessum faraldri, í þessu tveggja ára stríði okkar, í þeirri orrustu sem við höfum verið að heyja — sérstaklega í því stríði sem hefur staðið frá því í júlí ef við hugsum þetta í bylgjunum sem hafa gengið yfir og stökkbreytingu afbrigða. Ef við horfum til annarra þjóða og þeirra gagna sem er verið að vinna með þessa dagana um styttri meðallegutíma og lægri innlagnarhlutföll og áhrif þeirra sóttvarnaaðgerða sem við höfum beitt hingað til í þessari gjörbreyttu mynd í viðureigninni við ómíkron-afbrigðið, sem er mildara gagnvart veikindum, þá er orðið enn snúnara að takast á við þetta með hefðbundnum aðferðum. Mér finnst það hafa verið dregið mjög vel fram í dag.

Staðan er þessi: Sú frumskylda að verja líf og heilsu hefur ekki farið frá okkur, sú frumskylda að tryggja heilbrigðiskerfið okkar sem hefur unnið undir miklu álagi í langan tíma, í þessi tvö ár. Í ljósi mikillar útbreiðslu smita hefur Landspítalinn verið færður upp á neyðarstig og til að samhæfa aðgerðir og vinnubrögð allra í heilbrigðisþjónustu erum við á neyðarstigi almannavarna. Meðan svo er þá verðum við öll, samfélagið, að hlaupa með og vinna með heilbrigðiskerfinu okkar og tryggja að þeir sem veikjast og þurfa á innlögn og umönnun að halda fái þjónustu og að við höldum annarri þjónustu sem mest óskertri.

Þetta á við um fjölmarga aðra starfsemi og það hefur reynt verulega á. Það kom m.a. fram á fjölmörgum samráðsfundum sem við héldum hér, ráðherranefndarfundum með fjölmörgum aðilum úr samfélaginu og vísindafólki okkar, að þessi hefðbundnu úrræði og það að tempra og leyfa samfélaginu að ganga eins og hægt er, að finna þetta jafnvægi — að það væru að verða breytingar á því og til þess erum við að horfa núna.

Þegar ég tala um aðrar þjóðir og samanburð við aðrar þjóðir þá erum við ekki á sama stað í bylgjunni og það þarf að meta líka. Við sjáum til að mynda í Bretlandi að þar er búið að aflétta nánast öllum takmörkunum og hefðbundnum úrræðum. Við sjáum það í Danmörku og Noregi, sem hafa verið með viðlíka takmarkanir og við, að þar er verið að stíga frekari skref til afléttingar. Þannig að: Já, ég sé það, virðulegi forseti, hér núna að ef allt þróast með þessum hætti þá verðum í færum til að létta á en það verður að gera skynsamlega, í skrefum, og það verður að taka mið af stöðunni í heilbrigðiskerfinu. Við verðum að byrja á því að ná spítalanum niður af neyðarstigi almannavarna og svo getum við farið að horfa til bjartari tíma.