152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

uppbygging geðdeilda.

14. mál
[16:13]
Horfa

Flm. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um uppbyggingu geðdeilda en að tillögunni stendur þingflokkur Samfylkingar. Tillagan orðast svo:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að hefja vinnu við að tryggja bætta aðstöðu fyrir geðsvið Landspítala og geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri. Skipaður verði starfshópur fagfólks og hagsmunaaðila, þ.m.t. notenda og aðstandenda þeirra, sem annist frumathugun, þarfagreiningu og húsrýmisáætlun vegna verksins, beri saman ólíka kosti og leggi fram tillögur að staðsetningu og stærð. Tryggt verði að nýr húsakostur mæti kröfum nútímans um mannúðlega, framsækna og fjölbreytta geðheilbrigðisþjónustu, þ.m.t. lyfjalausa geðdeild.

Starfshópurinn leggi greinargerð sína og tillögur fyrir ráðherra eigi síðar en 1. júlí 2022.“

Þessari þingsályktunartillögu svipar til þeirrar sem lögð var fram á síðasta löggjafarþingi en hefur þó verið útvíkkuð eftir ábendingar og snertir nú einnig starfsemi geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri. Með tillögunni er lagt til að ráðist verði í markvissan undirbúning að uppbyggingu húsnæðis fyrir geðheilbrigðisþjónustu Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri, en húsakostur beggja sviða er með öllu ófullnægjandi. Brýnt er að samhliða uppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut verði geðsviði spítalans fundinn fullnægjandi húsakostur sem tekur mið af þörfum fólks sem glímir við geðrænar áskoranir sem og að geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri, sem er eina sérhæfða geðdeildin utan höfuðborgarsvæðisins, verði einnig búinn fullnægjandi og nútímalegri húsakostur.

Starfsemi geðsviðs Landspítala fer einkum fram í gömlu byggingunni við Hringbraut sem og á Kleppi, eldgömlu byggingunni við Elliðaárvog. Húsnæðið við Hringbraut er byggt á áttunda áratugnum eftir byggingarreglugerðum þess tíma en starfsemin á Kleppsspítala hófst árið 1907. Landssamtökin Geðhjálp hafa ítrekað bent á að húsnæðið við Hringbraut sé um margt óhentugt fyrir starfsemina, þannig sé til að mynda ekki gert ráð fyrir útisvæðum fyrir þá sem eru í vistun á lokuðum deildum og í gæslu vegna veikinda sinna. Húsnæði Klepps er jafnframt úr sér gengið og hugmyndafræðin að baki aðstöðunni gamaldags og á skjön við nútímakröfur um mannúðlega meðferð sjúklinga sem glíma við geðrænar áskoranir.

Í úttekt landlæknis á geðsviði Landspítala frá 2013 kemur fram að ástandi húsnæðis sé víða ábótavant og það standist ekki nútímakröfur. Húsbúnaður sé úr sér genginn, skortur sé á viðtalsherbergjum og óæskilegt fyrir þennan viðkvæma sjúklingahóp hve mörg legurýmanna séu í tvíbýli. Þá telji starfsmenn niðurlægjandi fyrir sig og sjúklingana að vinna og dvelja í niðurníddu umhverfi. Landlæknir kemst að þeirri niðurstöðu í úttektinni að gera þurfi nauðsynlegar úrbætur á húsnæði og húsbúnaði geðsviðs sem fyrst. Ég ítreka að um er að ræða úttekt landlæknis á geðsviðinu frá árinu 2013 eða fyrir átta, níu árum síðan. Síðan þetta var sagt hefur lítið breyst í þessum efnum og sat húsakostur geðsviða eftir í þeirri húsnæðisuppbyggingu sem nú stendur yfir á Landspítala og er það miður.

Nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyndingum hefur sett tiltekin viðmið um hvað þurfi að hafa í huga þegar veitt er meðferð á lokuðum geðdeildum. Þar er lögð áhersla á að öruggt en jafnframt hlýlegt umhverfi sé einn nauðsynlegra þátta til að mæta grunnþörfum við umönnun sjúklinga. Umhverfi sem er bjart, rúmgott og hreinlegt hefur almennt jákvæð áhrif á líðan og hegðun sjúklinga. Þetta er ekki aðeins mikilvægt fyrir sjúklingana heldur einnig fyrir starfsfólk. Að sama skapi er mikilvægt að einstaklingar sem dveljast á lokuðum deildum geðheilbrigðisstofnana hafi tök á að njóta útiveru með einhverjum hætti, a.m.k. í eina klukkustund á dag ef ástand þeirra leyfir. Hafa verður í huga að þegar einstaklingar hafa verið sviptir frelsi sínu fyrir tilstilli hins opinbera og hafa ekki sjálfir tök eða forræði á að taka ákvarðanir um þessi atriði er varða nærumhverfi þeirra og grunnþarfir, er mikilvægt að tryggt sé að þessi atriði séu til staðar, að tryggt sé að þeir sem eru frelsissviptir komist hluta úr degi út undir bert loft. Getur hið gagnstæða beinlínis haft verulega neikvæð áhrif á heilsu einstaklinga.

Hvað varðar húsnæði geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri þá er rétt að vísa til úttektar embættis landlæknis frá því í desember 2012, fyrir tíu árum, þar sem m.a. segir að aðstaðan á legudeild geðdeildar sé óviðunandi og óforsvaranleg til lengri tíma litið. Í ársskýrslu sjúkrahússins fyrir árið 2020 segir að legudeild geðdeildar sé enn í því húsnæði sem tekið var í notkun 1986 og að þrátt fyrir vissar endurbætur sem gerðar hafi verið á húsnæðinu hin síðari ár standist húsnæði legudeildar ekki nútímakröfur. Ljóst má því vera að aðgerða er þörf.

Frú forseti. Við erum eftirbátar nágranna okkar á Norðurlöndum. Víða á Norðurlöndum hafa verið stigin mikilvæg skref á undanförnum árum í átt að mannúðlegra og heilnæmara umhverfi fyrir sjúklinga sem glíma við geðrænar áskoranir. Í því samhengi má nefna geðsjúkrahúsið í Vejle í Danmörku sem var opnað árið 2017 í nýrri byggingu þar sem öll innanhússhönnun tekur mið af viðurkenndum áhrifum umhverfis og húsakosts á geðheilsu. Einnig er vert að skoða þá uppbyggingu sem nú á sér stað við Bispebjerg-spítalann í Kaupmannahöfn og réttargeðdeildina á Sct. Hans í Hróarskeldu. Löngu er orðið tímabært að stigin verði sams konar skref á Íslandi og starfsemi geðsviðs Landspítala og geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri fundinn húsakostur þar sem er bjart, vítt til veggja og hátt til lofts og í umhverfi sem býður upp á útiveru og hreyfingu. Við vitum jú öll hvað útivera, súrefni og hreyfing skiptir gríðarlega miklu máli fyrir andlega heilsu okkar, þá ekki síst fyrir þennan sjúklingahóp sem þarna er frelsissviptur. Því er lagt til að heilbrigðisráðherra skipi starfshóp fagfólks og hagsmunaaðila, þar með taldir notendur og aðstandendur þeirra, sem vinni frumathugun, þarfagreiningu og húsrýmisáætlun vegna verksins og skili af sér greinargerð um mitt ár 2022.