152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

uppbygging geðdeilda.

14. mál
[16:58]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og get tekið undir það að við gætum örugglega verið hér í allan dag og rætt um heilbrigðismál. En af því að hv. þingmaður kom inn á Kragasjúkrahúsin þá er líka áhugavert að velta fyrir sér í kjölfar þessa heimsfaraldurs að nú hefur verið mikið lagt upp úr því að hafa einn spítala hérna á höfuðborgarsvæðinu, Landspítala. Hann átti að vera við Hringbraut, loka Borgarspítalanum, búið að sameina þetta og mjög mikið atriði að koma öllu saman á sama reit í sömu byggingu. Svo þegar upp kemur eitt stykki heimsfaraldur þá má kannski velta fyrir sér: Bíddu, er kannski gott að vera á fleiri en einum stað þegar upp koma smit? Það má alveg velta því fyrir sér. Þó að ég viti af öllum skýrslunum varðandi Landspítalann, og örugglega er það mikilvægt og einhver hagkvæmni í því fólgin, ekki síst þjónustulega séð, að hafa þá sem koma að mismunandi sjúkdómum á sama stað hvað varðar þekkingarlega yfirfærslu og allt þetta, þá hef ég talað fyrir því í fjölda ára og hef alltaf séð einhverja rómantík í því að hafa líka minni einingar annars staðar sem sinna afmörkuðum þáttum. Það er hægt að nefna Reykjalund, sem mjög gott dæmi um það, það er endurhæfingarspítali í Mosfellsbæ. Og kannski væri frábært að hafa einn fallega staðsettan geðspítala einhvers staðar í náttúrunni, í Hafnarfirði. Það er svona vangavelta sem ég er með.

Varðandi geðheilbrigðismálin þá tek ég undir með hv. þingmanni og segi: Ég skal vera með þér í liði. Við ætlum að berjast fyrir því að það sé bætt geðheilbrigðisþjónusta hér á landi. Ég hef verið með fyrirspurnir, reyndar til fyrrverandi heilbrigðisráðherra, þar sem er um að ræða mál á tímum heimsfaraldurs og ég veit að landlæknir hefur fylgt þessu eftir ágætlega í sínum könnunum. Fyrstu niðurstöður, ef ég man rétt, komu á óvart, við óttuðumst að þetta hefði meiri áhrif á sálarlíf fólks, það gerði það ekki í upphafi. Alveg eins og með kreppuna, það er eitthvað sem dregur aðeins úr öllu álaginu og stundum er gott að fara aðeins inn á við (Forseti hringir.) og taka hlutunum rólega. En ég er býsna hrædd um að allur þessi tími muni koma í bakið á okkur (Forseti hringir.) og það er það sem maður hefur miklar áhyggjur af og er eitthvað sem við þurfum að horfa til á næstu misserum.