152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

ávana- og fíkniefni.

24. mál
[17:10]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P):

Forseti. Bann við vörslu og meðferð ávana- og fíkniefna má fyrst rekja til þriðja áratugar 20. aldar þegar sett voru hér á landi lög um tilbúning og verslun með ópíum o.fl. Lögin byggðust á Haag-samþykktinni frá 1912 sem Ísland gerðist aðili að árið 1921. Gildissvið laganna var frekar þröngt fyrst um sinn og var það ekki fyrr en á sjöunda og áttunda áratug aldarinnar sem öll fíkniefni voru felld undir löggjöfina og varsla og meðferð þeirra gerð refsiverð.

Síðan hefur neysla fíkniefna aukist jafnt og þétt. Neikvæðar afleiðingar neyslunnar hafa komið skýrar fram og vandamálum tengdum neyslunni fjölgað. Allt bendir til þess að refsistefnan sé misheppnuð tilraun til að taka á fíknivandanum. Í skásta falli virkar hún ekki og í versta falli er hún beinlínis skaðleg. Á þeirri rúmlega hálfu öld sem þessi tilraun hefur staðið yfir hafa samt engar grundvallarbreytingar verið gerðar á því hvernig tekið er á notendum vímuefna. Það sem hefur þó verið að gerast smám saman á undanförnum árum er að horfið hefur verið frá þyngri refsingum fyrir vörslu neysluskammta. Þá hefur í auknum mæli verið lögð áhersla á skaðaminnkun í aðgerðum yfirvalda til að sporna gegn neikvæðum afleiðingum neyslu þó að refsingum sé enn útdeilt í miklum mæli, því miður.

Rætt hefur verið um afglæpavæðingu vímuefna hér á landi um árabil. Á vettvangi Alþingis má rekja upphaf þeirrar umræðu til þingsályktunartillögu á 143. löggjafarþingi um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum neyslu ávana- og fíkniefna til aðstoðar og verndar neytendum efnanna og félagslegum réttindum þeirra, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild.

Undanfarin ár hefur samfélagið sammælst um mikilvægi þess að aðstoða fólk með fíknivanda, frekar en að refsa því, og veita því sjálfsagða heilbrigðisþjónustu. Má sjá skýr merki um þá nálgun í nýlegri laga- og reglugerðarsetningu, t.d. með því að smávægileg brot á lögum um ávana- og fíkniefni komi ekki fram á sakavottorði, með setningu nýrra umferðarlaga sem kveða á um að aðeins mæling ávana- og fíkniefna í blóði geti verið grundvöllur sviptingar ökuleyfis og með setningu laga um neyslurými. Sama þróun hefur átt sér stað víða um heim á undanförnum árum og áratugum þar sem dregið hefur verið úr refsingum eða þeim hætt gagnvart notendum vímuefna og athygli heldur verið beint að því að veita þeim sem eiga við fíknivanda að stríða viðeigandi heilbrigðisþjónustu.

Þrátt fyrir þær framfarir sem orðið hafa í málaflokknum á undanförnum árum verður ekki litið fram hjá því að enn eru í gildi refsiákvæði fyrir vörslu og meðferð fíkniefna til eigin neyslu, jafnvel þótt magn efna sé mjög lítið. Því mega neytendur eða notendur vímuefna vænta þess að vera beittir sektum eða öðrum refsingum. En það sem kann að vega þyngra er skylda lögreglu til að stöðva og koma í veg fyrir þessi brot. Eins og fram kom í umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um frumvarp um neyslurými á 149. löggjafarþingi hefur lögreglan ekkert mat um það hvort hún láti yfir höfuð til sín taka þegar hún hefur afskipti af einstaklingi sem hefur á sér fíkniefni. Á meðan til staðar eru refsingar gegn notendum vímuefna hefur lögreglan áfram skyldu til að koma í veg fyrir vörslu og meðferð neysluskammta, leggja hald á efni sem hún finnur og beita nauðsynlegum rannsóknarúrræðum til að upplýsa um möguleg brot. Á meðan einstaklingar sem hafa undir höndum neysluskammta vímuefna mega vænta þess að för þeirra verði stöðvuð, að á þeim verði gerð líkamsleit, að efni verði haldlögð og þeir sektaðir þegar þeir leita til yfirvalda eða þegar lögreglan verður á vegi þeirra er ekki hægt að viðhalda áhrifaríkri skaðaminnkunarstefnu. Það fer einfaldlega ekki saman, virðulegur forseti.

Það hefur sýnt sig í öllum þeim ríkjum sem hafa stigið skrefið til afglæpavæðingar til fulls að það er fyrst með afglæpavæðingu neyslu vímuefna sem raunverulegur árangur næst í því að draga úr skaðlegum áhrifum vímuefnaneyslu. Staðreyndin er sú að dauðsföllum hefur fjölgað á Íslandi langt umfram það sem gerist í nágrannaríkjum okkar. Ef við skoðum dánarorsakir benda þær til þess að tölurnar yfir dauðsföll vegna ofskömmtunar eða neyslu vímuefna séu allt að tvöfalt eða þrefalt hærri hér á landi en gerist í Evrópu.

Forseti. Samkvæmt núgildandi lögum er varsla og meðferð ávana- og fíkniefna óheimil og refsiverð á íslensku forráðasvæði. Þá er tiltekin meðferð annarra efna sem oft eru nefnd lyfseðilsskyld lyf einnig refsiverð. Jafnvel þótt um mjög litla skammta sé að ræða er varsla þeirra refsiverð að fullu samkvæmt þessum greinum. Brot á lögunum varða sektum eða fangelsi allt að sex árum.

Með frumvarpi þessu er lagt til að sú háttsemi sem skilgreind er refsiverð samkvæmt 2. og 3. gr. laga um ávana- og fíkniefni sé þrengd með þeim hætti að orðið varsla sé fellt út hvað varðar skilgreininguna á hinum refsiverða verknaði. Það er þó með því skilyrði að magn efna sé ekki umfram það sem talist getur til eigin notkunar þannig að varsla efna verði enn refsiverð þegar augljóst er að þau eru ætluð til sölu eða dreifingar. Þá verði innflutningur, útflutningur, sala, skipti, afhending, framleiðsla og tilbúningur efna áfram refsiverður. Þannig er öruggt að áfram verður hægt að sakfella fyrir það sem kann að teljast alvarlegra brot á lögum um ávana- og fíkniefni en refsingum ekki beitt gegn notendum vímuefna vegna vörslu efna sem ætluð eru til eigin neyslu.

Hvað varðar magn þeirra efna sem einstaklingur má hafa í fórum sínum er ráðherra gert að setja reglugerð þar sem kveðið verði á um hvaða magn ávana- og fíkniefna sem getið er í 2. og 3. gr. geti talist til eigin nota. Við mat á því hvaða magn teljist til eigin nota skuli miða við tíu daga neysluskammt. Við höfum rætt nokkuð um skilgreiningu neysluskammta en sú tilhögun sem hér er lögð til var fyrst lögð fram í nefndaráliti minni hluta velferðarnefndar á 150. löggjafarþingi. Ráðherra fær samkvæmt henni heimild til að skilgreina nánar í reglugerð hvaða magn hvers efnis skuli teljast neysluskammtur og telst það magn efnisins þá refsilaust. Það er í samræmi við það sem nágrannalönd okkar hafa gert þar sem nokkur lönd hafa þegar afglæpavætt vörslu neysluskammta.

Eftirlitsstofnun Evrópu með lyfjum og lyfjafíkn er sjálfstæð stofnun á vegum Evrópusambandsins og hlutverk hennar er að veita stefnumótendum, sérfræðingum og rannsakendum vímuefnamála áreiðanlegar, ítarlegar og víðtækar upplýsingar um vímuefnamál. Stofnunin hefur þegar tekið saman lagalega stöðu neytenda þegar kemur að refsinæmi neyslu og vörslu neysluskammta um alla Evrópu. Samkvæmt stofnuninni hafa nokkur lönd Evrópusambandsins þegar skilgreint neysluskammta eða miðað refsinæmi við ákveðið lítið magn efna sem gæti þá talist vera til eigin neyslu. Þau eru Portúgal, Spánn, Ítalía, Slóvenía, Króatía, Búlgaría, Tékkland og Lettland. Sum landanna hafa skilgreint stutta lista af algengustu vímuefnunum en önnur ítarlegan lista sem nær til allra þeirra efna sem skilgreind eru sem ólögleg í alþjóðasamningum um ávana- og fíkniefni.

Það liggur ljóst fyrir að þegar hafa mörg ríki farið í þá vinnu að skilgreina neysluskammta með einum eða öðrum hætti. Í ljósi þess er eðlilegt að sækja þekkingu til Evrópuríkja sem hafa áratugalanga reynslu af afglæpavæðingu vímuefna. Þá er nú þegar til viðmið hjá lögreglu um hvaða magn efna teljist alvarlegt, ef svo má að orði komast, en mögulegt væri að líta til þeirra brota sem lögreglustjóri hefur heimild til að ljúka með lögreglustjórasekt eða líta til þeirra smávægilegu brota sem ekki fara lengur á sakaskrá og miða skilgreiningu neysluskammta við það magn efna. Vímuefnabrot fara nú orðið ekki á sakaskrá þegar sekt er ákveðin lægri en 100.000 kr. Hvernig sem það er gert eru margar leiðir til að skilgreina neysluskammta, svo mikið er víst. Þetta er enda sama aðferðafræði og lá til grundvallar í frumvarpi heilbrigðisráðherra sem hlaut ekki afgreiðslu á 151. þingi þar sem kveðið var á um að ráðherra skyldi setja reglugerð um magn efna til eigin nota.

Í 3. gr. frumvarpsins sem við erum að fjalla um núna er svo að finna ákvæði sem varðar heimild til upptöku efna í vörslu einstaklinga. Þar er tilgreint að heimild lögreglu til upptöku efna nái ekki til þeirra efna sem eru í vörslu einstaklinga yfir 18 ára aldri þegar magn efna er innan þess sem talist getur til eigin nota. Þannig verður tryggt að efni til eigin neyslu verði ekki haldlögð jafnvel þó að þeirra kunni að hafa verið aflað með ólögmætum hætti. Lögreglan hafi í þeim tilvikum hvorki heimild né skyldu til að gera slík efni upptæk. Það hefur reyndar sýnt sig að upptaka efna getur haft afar neikvæð áhrif á neytandann sem neyðist þá til að útvega sér meiri efni, sem leiðir oft til frekari afbrota eða ofbeldis. Þó er lagt til að lögreglan hafi áfram heimild til upptöku efna einstaklinga undir 18 ára aldri, enda eðlilegt að lögregla kunni að hafa verndarhlutverk gagnvart börnum sem ekki eru sjálfráða. Henni ber einnig að tryggja velferð barnsins í samræmi við barnaverndarlög en þegar kemur að fullorðnum einstaklingi getur lögreglan ekki haft sama verndarhlutverk enda getur enginn annar en einstaklingurinn sjálfur borið ábyrgð á því hvaða efna hann neytir eða neytir ekki.

Með 4. gr. frumvarpsins er svo nýju bráðabirgðaákvæði bætt við lög um ávana- og fíkniefni sem felur heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp til að hafa eftirlit með áhrifum og ávinningi af afglæpavæðingu vörslu neysluskammta vímuefna. Það er nauðsynlegt til að fylgja eftir lagabreytingum og tryggja að áhrif af innleiðingu þeirra verði í samræmi við væntingar og að þeir fjármunir sem sparast nýtist til að efla forvarnastarf ásamt heilbrigðis- og félagsþjónustu til að aðstoða fólk með fíknivanda að ná bata.

Hvað varðar gildistöku laganna er hún ákveðin með það í huga að veita ráðherra svigrúm til að bregðast við lagasetningu og setja þá reglugerð sem kveðið er á um í c-lið 1. gr. Þess vegna er lagt til að lögin taki gildi 1. júní 2022.

Forseti. Mig langar að fjalla aðeins um af hverju afglæpavæðing skiptir svona miklu máli. Það skiptir ótrúlega miklu máli að við sem löggjafi getum viðurkennt það þegar stefna sem hefur verið í framkvæmd í marga áratugi virkar ekki. Við erum að tala um áratugareynslu af þessari refsistefnu og við verðum að geta viðurkennt og horfst í augu við það þegar sú stefna virkar ekki, þegar sú stefna hefur ekki skilað tilætluðum árangri og þegar sú stefna er skaðleg. Við verðum að geta horfst í augu við að nálgun okkar á fíknivanda hefur ekki gengið. Við þurfum að geta horft á gögnin og vísindin og við þurfum að geta tekið nýja ákvörðun um að móta nýja stefnu og við þurfum að vera óhrædd við að gera það.

Við getum ekki haldið áfram í sama fari og neitað að horfast í augu við að leiðangurinn mistókst, kannski af því við erum hrædd við skilaboðin sem það sendir unga fólkinu okkar. En hver eru skilaboðin sem við sendum unga fólkinu okkar í dag? Ef þú fiktar með vímuefni ertu glæpamaður sem lögreglunni ber samkvæmt lögum að refsa. Ef eitthvað fer úrskeiðis getur þú ekki fullkomlega treyst heilbrigðisstarfsfólki og enn síður treyst lögreglu til að aðstoða þig. Fólk leitar sér því síður aðstoðar þegar virkilega er þörf á. Þetta hafa rannsóknir í nágrannalöndum okkar að sýnt að er staðreynd, að ungt fólk sækir sér yfir höfuð ekki aðstoð í erfiðum tilfellum. Þegar það er í ofbeldisaðstæðum eða öðrum hættulegum aðstæðum sækir fólk sér ekki aðstoð vegna þess að það lítur ekki á lögregluna sem vin sinn. Fyrir utan það, forseti, að ungt fólk er ekki vitlaust. Það er ekkert mál að afla sér upplýsinga í nútímaheimi. Ungt fólk veit örugglega miklu meira um vímuefni en við flest hér inni. Þess vegna skiptir máli að forvarnastarf sé byggt á réttum upplýsingum en ekki kreddum og hræðsluáróðri. Ef við ljúgum að unga fólkinu okkar er ekki hægt að taka okkur trúanleg. Það er bara svo einfalt.

Hér eru nokkrar staðreyndir: 80–90% allra sem nota vímuefni lenda ekki í vandræðum með notkun. 80–90% af þeim sem lenda í vandræðum með notkun munu samt hætta neyslu eða misnotkun á eigin spýtur án utanaðkomandi inngrips, oftast í kringum þrítugsaldurinn. Þetta vitum við. Þeir sem lenda í vandræðum með vímuefnaneyslu eru því brot af broti. Þetta fólk, þessi hópur, þessi litli viðkvæmi hópur, er fólkið sem okkur ber að grípa og hlúa að og við aðstoðum það ekki með fordómum og jaðarsetningu eins og eru til staðar í núverandi kerfi. Enn frekar eru fordómar og jaðarsetningar frekar til þess fallnar að setja hina í hættu, þ.e. þá sem eru ekki í hættu á að misnota vímuefni. Þegar við jaðarsetjum og aukum á tengslarof þessa unga fólks erum við að auka hættuna á því að það muni eiga við vandamál að stríða seinna. Beitum bara smá rökhugsun. Hugsum þetta rökrétt. Fólk sem hefur upplifað áföll í æsku eða í gegnum lífið, fólk sem lifir í viðvarandi sorgarástandi, upplifir tengslarof, vangetu til að tengjast ástvinum, samfélaginu og sjálfu sér og leiðist út í vímuefnanotkun sem verður að vímuefnavanda eða fíknivanda — hvernig komum við fram við þetta fólk? Refsingin sem við beitum í formi sekta, haldlagningar efna eða bara niðurlægingin sem felst í því að komið sé fram við fólk eins og glæpamenn og annars flokks þegna er ekki að fara að aðstoða veikt fólk eða fæla fólk frá vímuefnanotkun. Við vitum það. Gögnin sýna það. Ef við beitum rökhugsuninni segir hún okkur það. Refsingin eykur á jaðarsetningu og eykur þar af leiðandi á tengslarofið, tengslarof sem er oftar en ekki rót fíknivandans. Við þurfum ekki einu sinni að beita rökhugsun því að við getum blessunarlega stutt okkur við rannsóknir og þær eru fjölmargar, forseti. Ef við sem samfélag viljum aðstoða jaðarsett fólk þurfum við að byggja brýr og heila tengslarofið, ekki auka það.

Það skiptir máli að við tökum þessa umræðu og ég er búin að taka hana nokkrum sinnum hér á þingi. Ég hef líka hitt fólk, bæði aðstandendur fíkla og fólk sem hefur átt við fíknivanda að stríða sjálft, sem er ofboðslega efins um að það sé rétt að afglæpavæða vörslu neysluskammta vímuefna og er ofboðslega hrætt við skilaboðin sem við sendum þá til samfélagsins og hvaða áhrif það muni hafa. Mér finnst það bara eðlileg hræðsla, eðlilegir fyrirvarar, af því að það tengist þessari tilfinningu, þessari hræðslu. En við sem löggjafi getum ekki byggt lög og löggjöf á tilfinningu okkar. Við verðum að gera það út frá gögnum. Við verðum að horfa á vísindin. Við verðum að horfa á hvað önnur lönd hafa gert og hver árangurinn þar er og hvað virkar. Þannig byggjum við löggjöf. Rannsóknir um allan heim benda til þess að refsilöggjöf gegn vímuefnum hafi afar lítil áhrif á neyslu. Umtalsverðar sannanir liggja fyrir því að það sé í raun engin tenging á milli þess hversu ströng refsilöggjöfin er í hverju landi og hver tíðni vímuefnaneyslu er. Áhrifaþættirnir sem skipta raunverulega máli eru menningarlegir, félagslegir og efnahagslegir. Það hefur með öðrum orðum algjörlega mistekist að beita refsivörslukerfinu til að hemja vímuefnaneyslu. Það virkar ekki. Á Íslandi hafa um 75 milljarðar farið í fíknistríðið síðan 1968. Hátt í 30.000 einstaklingar hafa verið handteknir síðan bannið var sett árið 1968. Ef við hefðum sleppt stríðinu við fíkniefni og þess í stað varið hálfum öðrum milljarði árlega í geð- og menntaþjónustu við börn sem standa höllum fæti, hvort ætli hefði skilað betri árangri og hamingjusamara fólki?

Ég legg til að þeir þingmenn sem taka þátt í þessari umræðu og eru mótfallnir því að víkja frá refsistefnu gagnvart notendum vímuefna komi hingað upp og færi rök fyrir gagnsemi refsistefnunnar og réttmæti áratuga ofsókna gegn ungu fólki og sjúku. Því að ef þingmenn vilja halda áfram á núverandi braut ættum við öll að fara fram á að sjá sannanir þess að núverandi stefna skili tilætluðum árangri. Annað er bara bull.