152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

ávana- og fíkniefni.

24. mál
[17:30]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir öfluga og góða ræðu. Mig langaði að koma hérna upp til að taka undir margt af því sem hv. þingmaður segir hér. Þetta mál er auðvitað ekki nýtt af nálinni og eins og hún rakti hér í sögulegu samhengi hefur þetta þróast og umræðan verið löng og oft sár og erfið. Hún hefur verið mér erfið, ekki það að ég styðji við refsistefnu, alls ekki, heldur er það bara óttinn; óttinn við aukið aðgengi, óttinn fyrir mig sem móður fjögurra barna hvort öll skref sem við stígum í þessa átt séu rétt, að við séum örugglega að gera rétt. Ég er þess eiginlega fullviss að þannig er um flesta sem setja spurningarmerki við afglæpavæðingu. Við erum auðvitað ekki að tala um afglæpavæðingu hér. Við erum að tala um að varsla neysluskammta verði refsilaus. Það er gríðarlega mikilvægt atriði þegar við erum að horfa á refsingar, þegar við erum að horfa á sektir að þetta bitnar auðvitað fyrst og fremst á mjög viðkvæmum hópi en allra síst þeim sem mesta ábyrgð bera, svo sem þeim sem flytja inn fíkniefni eða standa á bak við stóru myndina. Ég er ekki alveg búin að gera upp hug minn því að mér finnst ég þurfa að kynna mér málið betur. En mig langaði þó að koma hér upp og segja að ég er þakklát fyrir alla umræðu sem fram fer og ég ætla að lesa um þetta og rýna til gagns svo ég geti tekið upplýsta og vonandi rétta ákvörðun.