152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

ávana- og fíkniefni.

24. mál
[17:35]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn og kollegar og kæra þjóð sem horfir á okkur í beinni útsendingu. Ég heiti Tómas, kallaður Tommi. Í gær sagði ég ykkur að ég væri eldri borgari. Ég er enn þá eldri borgari og ég er að auki óvirkur alkóhólisti í bata. Ég er búinn að vera óvirkur alkóhólisti síðan í júní 1980. Ég hef kynnt mér þessi mál vel. Ég er búinn að vera innviklaður í þetta umhverfi árum saman og mér finnst að ég þekki þetta eins og lófann á mér. Ég er engan veginn sannfærður um að það að afglæpavæða vörslu fíkniefna sé einhver lausn á vandamálinu. Í kringum mig er mikið af ungu fólki og ég hef ekki enn þá hitt einn einasta sem neytir ekki fíkniefna, og þá aðallega sem reykir ekki gras, vegna þess að það sé ólöglegt. Ef þau gera það ekki er það bara af því að þau langar ekki til þess. Það lítur enginn þannig á að það að reykja gras sé ólöglegt.

Ég fór á ráðstefnu á meðferðarstöðinni Edgehill sem er í bænum Newport í Rhode Island-fylki í mars 1985. Það stóð til að ég færi að vinna fyrir SÁÁ og ég fór á þessa ráðstefnu til að kynna mér allt það nýjasta á þeim tíma í fíkniefnum. Mér er í fersku minni einn af þeim sem héldu fyrirlestra, mjög virtur maður, John Wallace sem var á þeim tíma talinn einn af þeim betri eins og Þórarinn Tyrfingsson á sínum tíma hér. Hann sagði: Ef ég hefði hér á borðinu tíu sterkustu og verstu fíkniefni sem við þekkjum í dag, þar með talið heróín, quaalude, amfetamín, metamfetamín og kókaín og það tíunda væri áfengi og ef ég ætti að taka eitt þeirra af því að það væri hættulegt þá myndi ég taka áfengi. Áfengi er langhættulegasta fíkniefnið. Læknarnir á Vogi segja að það fólk sem er langverst farið sé fólkið sem er bara í áfengi.

Varðandi afglæpavæðingu fíkniefna og fíkniefnaskammta, hvað er tíu daga skammtur? Það getur verið hvað sem er. Ef ég ætlaði að fara af stað í dag og skemmta mér með því að taka kókaín þá myndi ég ásamt vinum mínum tveimur eða þremur geta látið 1 gramm duga og við gætum verið „high“ og skemmt okkur allt kvöldið. Eftir tvö ár í stöðugri neyslu myndi ég fara létt með að taka 5 grömm á einum sólarhring þannig að tíu daga neysluskammtur er þá 50 grömm af kókaíni. Kókaín kostar 18.500 kr. grammið og þeir segja mér, af því að ég er nú svolítið innviklaður í fólk sem hefur verið í neyslu og hef kynnt mér þetta ágætlega, að ef þeir eru heppnir og fá sterkt kókaín sem þeir borga fyrir kannski 12.000–14.000 kr. til að selja á 18.500 kr. en ef það er nógu sterkt þá geta þeir skorið niður í tvennt þannig að þeir eru að selja skammt sem átti að kosta 18.500 á 37.000. Við erum að tala um það að maður sem er glöggur í viðskiptum og vill græða pening og getur komist upp með það að vera 5 eða 10 grömm á sér er bara að græða, bara enga stund að selja þetta á góðu kvöldi. Ef hann klárar neysluskammtinn þá fer hann bara til innflytjanda og fær meira og heldur áfram að selja. Þetta mun þannig að mínu mati auka neyslu á fíkniefnum.

Hafið þið séð þættina Dopesick? Það byrjaði með Oxycontin-neyslu, 10 mg, og svo dugðu þau ekki og þá voru komin 20 mg, svo 40 mg, svo 80 mg, og þetta er alveg eins og með t.d. kókaín. Vinir mínir sem eru lausir úr neyslunni segja mér að þeir hafi farið upp í 10 grömm á sólarhring þegar verst lét. Ég sé því ekki að þessi hugmyndafræði um að afglæpavæða sé hugsuð til enda.

Af tvennu illu myndi ég frekar vilja lögleiða þetta bara gjörsamlega og láta bara stjórna því hvernig þetta er flutt inn. Af því að í dag, ef þetta verður afglæpavætt, getur hver sem er verið með á sér og þeir sem græða mest á því eru innflytjendurnir. Það var einhver kona tekin núna fyrir einhverjum dögum eða vikum síðan með 4 kíló sem er bara slikk. Götuvirði þess eru 60–70 milljónir. Það er verið að flytja þetta inn alveg hægri vinstri úti um allt og ég sé ekki annað en að þetta muni aukast til muna ef þetta verður afglæpavætt. Eina leiðin til að stemma stigu við neyslunni eru forvarnir og síðan hjálp eftir að viðkomandi hefur misst tökin á sinni neyslu sem er mjög algengt.

Þið vitið að það eru nokkur hundruð manns á biðlista eftir að komast inn á Vog og nokkur hundruð manns á biðlista á hinum stöðunum, bæði Krýsuvík og Hlaðgerðarkoti, þannig að vandinn er til staðar. En það er ekki lausnin að afglæpavæða vegna þess að það gerir þetta svo auðvelt að vera með á sér og selja og hvetja til neyslu. Sumir sem eru að selja selja bara nóg til að eiga fyrir sjálfan sig frítt. En svo eru aðrir sem sjá pening í þessu og þeir eru bara að selja til að græða og eru ekkert í neyslu sjálfir. Maður sem selur 5 grömm á dag getur verið að græða kannski 50.000–70.000 kr., jafnvel meira, og ef hann gerir þetta nokkra daga í viku er hann kannski kominn með 200.000 kall á viku, bara beint í vasann, allt svartir peningar. Það er svo auðvelt að hvetja einhvern til að prufa ef það er ekki lengur ólöglegt. Þú getur alveg prufað, segir maður við næsta mann. Ókei, þetta er ekki ólöglegt, prufaðu, svo prufar hann og þetta er eins og með Oxycontin, þú prufar þetta og það er svo gott. Þú hefur fengið „blod på tanden“ segja þeir og þetta er það sama. Þú tekur einn skammt og þér líður svo vel að þú ræður ekki við þig. Þannig er neysla fíkniefna, því miður. Þú ræður ekki við sjálfan þig þegar þú ert byrjaður á annað borð.

Ég hvet ykkur til að hugsa þetta betur. Það er ekki tímabært að afglæpavæða þetta. Eins og ég segi vil ég frekar lögleiða þessi efni og við myndum ná utan um innflutninginn. Ég veit að í Colorado græða þeir tugi milljóna í skattgreiðslur af því að þeir eru búnir að lögleiða maríjúana. Við getum haft þetta að stórri tekjulind fyrir ríki og þjóð ef það á að gera þetta eins aðgengilegt og þetta verður með því að afglæpavæða það.