152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

ávana- og fíkniefni.

24. mál
[17:43]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og það er augljóslega mikil reynsla að baki og tími sem hefur farið að íhuga og hugsa þessi mál. En ég verð að koma upp og leiðrétta mikið af staðreyndavillum í máli hv. þingmanns þótt ég átti mig á því að þetta sé vel hugsað, enda er þetta þannig umræða að í flestum tilvikum þegar fólk ræðir þessi mál þá er alltaf góður hugur að baki. Það er ekki þannig að fólk ráði ekki við sig eftir að það er búið að prófa einhver vímuefni. Það er bara alls ekkert þannig. Eins og ég rakti áðan í ræðu minni, og ég endurtek það bara af því að mér finnst það vera mikilvægt, þá lenda 80–90% allra sem nota vímuefni ekki í vandræðum með notkun. Og 80–90% af þeim sem lenda í vandræðum með notkun hætta neyslu sjálfir, oftast fyrir þrítugt eða í kringum þrítugsaldurinn, gera það upp á eigin spýtur og án utanaðkomandi inngrips. Ef það væri virkilega þannig að maður réði bara ekki við sig eftir að maður prófar t.d. ópíóíða, þá værum við að tala um að allt fólk sem fer á spítala í einhvers konar aðgerð og þarf að taka ópíóíða sé bara fíklar og það er ekki rétt. Það eru það fæstir. Vandinn sem fólk sem á við fíknivanda að stríða stendur frammi fyrir er félagslegur að mjög miklu leyti og það er það sem við erum að koma í veg fyrir hérna.

Ég skynja að aðaláhyggjur hv. þingmanns snúa að því hvort þetta muni auka sölu og því langar mig að spyrja hann: (Forseti hringir.) Kemur núverandi refsilöggjöf, núverandi stefna í fíkniefnamálum, rosalega mikið í veg fyrir sölu? Ég sé það ekki. Fíkniefni hafa aldrei verið jafn aðgengileg og þau eru í samfélaginu (Forseti hringir.) í dag þrátt fyrir 50 ára refsistefnu á Íslandi. Er núverandi stefna að virka til að hindra sölu?

(Forseti (OH): Ég vil minna ræðumenn á að virða ræðutíma.)