152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

ávana- og fíkniefni.

24. mál
[17:48]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka andsvarið. Eins og ég segi þá skil ég alveg þessar áhyggjur. Nú las ég í ræðu minni upp lista af þjóðum sem þegar hafa afglæpavætt vímuefni og hafa margra ára reynslu af því. Þar hefur neysla ekki aukist og aðgengi að vímuefnum hefur ekki aukist. Það sem skiptir mestu máli — ég vil meina að það skipti miklu meira máli en það að neysla aukist — er hversu margir eiga við vanda að stríða vegna neyslunnar. Sú tala hefur fallið þegar afglæpavætt er. Það eru færri sem eiga við vandamál að stríða. Núverandi stefna hefur mistekist að því leyti að það virðist vera óheft aðgengi að vímuefnum í samfélaginu og þetta er sama vandamál og er úti um allan heim. Núverandi refsistefna hefur ekki náð því markmiði að stoppa neyslu vímuefna. Það er selt þótt það sé ólöglegt. Það er flutt inn, það er framleitt, fólk kaupir það og notar það. Þá skil ég ekki alveg þessar áhyggjur, ef við hættum að refsa notendum og viljum frekar reyna að aðstoða þá sem eiga við vanda að stríða, hvernig það ætti að auka söluna miðað við núverandi umhverfi sem heftir hana ekki á neinn hátt.

Hv. þingmaður hefur áhyggjur af þessum tíu daga skammti. Það er eitthvað sem hægt er að ræða í velferðarnefnd og laga til. Við erum að tala um það að við eigum að læra af þeim ríkjum og þeim löndum í kringum okkur sem hafa reynt þetta. Það er fullt af ríkjum sem hafa skilgreint neysluskammta á hátt sem virkar. Þá hljótum við að geta lært af því og innleitt það þegar við setjum þessa stefnu hér og þessa reglugerð. Ég efast ekki um að heilbrigðisráðherra muni nýta sér þá þekkingu við gerð reglusetningar. (Forseti hringir.) Þannig að mig langar bara til að spyrja hv. þingmann: Viljum við ekki (Forseti hringir.) fara frá stefnu sem hefur sýnt sig eftir áratugareynslu að virkar ekki? Eigum við að halda áfram eða eigum við að prufa eitthvað annað?