152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

ávana- og fíkniefni.

24. mál
[17:56]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég vil þakka málshefjanda og flutningsmanni fyrir ræðuna sem flutt var hér áðan og öðrum sem hér hafa talað. Ég er mjög hlynntur því að taka upp nýja nálgun þegar kemur að þessum málum öllum og að við þurfum að gera miklu meira af því sem samfélag að horfa á þetta allt saman sem heilbrigðisvanda frekar en vanda refsivörslukerfisins, lögreglu og eftir atvikum dómstóla. Mér finnst einhvern veginn að núverandi stefna verði meira til þess að okkur finnist við vera að gera gagn frekar en að við séum að gera gagn. Það er voðalega þægilegt að banna vonda hluti en því miður, og einkum og sér í lagi í þessu tilfelli, er það oft mjög ódýr og vanhugsuð lausn á ákaflega flóknum og erfiðum heilbrigðisvanda. Þetta er nefnilega þannig, eins og hefur komið fram í ágætum ræðum, bæði hjá hv. þm. Halldóru Mogensen og líka hjá hv. þm. Tómasi Tómassyni, að fíklar og alkóhólistar eru veikt fólk, þetta er oft og tíðum alveg óskaplega veikt fólk. Alkóhólismi er sjúkdómur, það er geðsjúkdómur, hann er skilgreindur sem geðsjúkdómur, bæði hér á Íslandi og hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Þá hljótum við að taka á afleiðingum þess geðsjúkdóms út frá þeim forsendum en ekki einhverjum öðrum. Heilbrigðisvandi er þetta í grunninn og þannig þurfum við að nálgast það.

Ég er meðflutningsmaður á þessu máli og fagna því að það sé komið fram og styð öll meginmarkmið þess. Reyndar ætla ég að leyfa mér, þrátt fyrir að vera meðflutningsmaður, að gera ákveðnar athugasemdir við nokkrar útfærslur í frumvarpinu og vonast til þess að geta þá haft áhrif á það við vinnslu málsins. Það snýr þá kannski einkum að því magni sem getur fallið undir skilgreiningu frumvarpsins eins og komið var inn á hér áðan. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra skal setja reglugerð þar sem kveðið er á um hvaða magn ávana- og fíkniefna sem getið er í 2. og 3. gr. getur talist til eigin nota. Við mat á því hvaða magn teljist til eigin nota skal miða við 10 daga neysluskammt.“

Þarna getum við auðvitað haft alls konar skoðanir á því hvað er neysluskammtur og hversu stórir þeir skammtar eiga að vera í lögunum og allt það. Ég hef tekið eftir því í þessari umræðu að margir hræðast að finna út úr þeim vanda að geta skilgreint þetta og nota það jafnvel sem afsökun fyrir því að styðja ekki málið, það sé svo óskaplega erfitt að finna út úr því hvað eigi að standa í lögunum hvað þetta varðar. Það er ekkert flókið. Við þurfum bara að ákveða hvað það er og vinna síðan út frá því. Tíu daga neysluskammtur getur verið allt of mikið magn að mínu mati, til að mynda hjá mjög veikum fíklum sem eru búnir að vera í dagneyslu á fíkniefnum lengi. Þeir eru að nota óskaplega mikið magn og ég veit ekki alveg hvort heppilegt sé að miða við það. Þá eru menn í raun og veru komnir upp í það magn sem sölumenn svona efna eru oft með. Þetta er ein af þeim útfærslum sem mér finnst að við þurfum að takast á um við meðferð málsins. En það breytir ekki því að markmiðið sjálft með frumvarpinu, meginefni þess og ekki síst bara hugsunin og tilfinningin í því, er eitthvað sem ég tek heils hugar undir.

Einmitt af því að við erum að ræða þetta á þessum forsendum langar mig líka að nefna að við höfum verið svolítið föst í því sem samfélag að bregðast við fíkniefnavandanum og vanda alkóhólista og fíkla með boðum og bönnum. Hins vegar erum við minna í því að efla fræðslu og styrkja bæði fyrirbyggjandi úrræði, sem er vel hægt að gera og við eigum að gera miklu meira af í þessu samfélagi, og svo líka meðferðarúrræðin sjálf. Þegar við fjöllum um þetta mál og þegar við erum að breyta ákveðnum hlutum í grunngerð þess hvernig við sjáum þetta allt saman fyrir okkur verðum við líka að hugsa um meðferðarpartinn og forvarnir og annað slíkt. Ég tek undir þá hugsun sem kom fram hér áðan að veikindi sem sjást hjá fíklum eru þess eðlis að enginn veikur fíkill er í einhverjum siðlegum samræðum við sjálfan sig um siðferðislegt gildi þess að nota þessi efni. Menn nota þau af því að þeir eru veikir. Þetta er fíkn og það er fíknin sem dregur menn áfram en ekki hvort þetta sé leyfilegt eða bannað. Það er náttúrlega ofsalega stór hugsanaskekkja í því þegar við erum að fjalla um þessi mál og hugsa um þau. Það er bara þannig að fælingarmáttur laga og fangelsa hefur ekkert óskaplega mikil áhrif á þá sem eru undir þegar við tökumst á við þennan vanda. Fælingarmáttur, boð og bönn gætu mögulega haft áhrif á aðra hópa, ég ætla ekkert að útiloka það, en það er allt of mikið gert úr þeim þætti. Það er bara þannig að veikur fíkill gerir hvað sem er fyrir næsta skammt af því hann er veikur, ekki af því að hann er vondur og ekki af því að hann er eitthvað svo siðferðislega brenglaður að hann átti sig ekki á muninum á því sem er bannað og því sem er leyfilegt. Það er mjög mikilvægt atriði í þessu öllu. Fólk sem er tekið með lítilræði af efnum á frekar að fá hjálp frá yfirvöldum en dóm eða afskipti lögreglu. Svo ég barni það frekar sem ég kom aðeins inn á áðan finnst mér vel koma til greina að ein hliðarafurð svona þingmáls geti verið að þeir sem lenda í klóm lögreglu með það sem við erum búin að skilgreina sem eðlilega neysluskammta fái frekar einhvers konar beiðni eða ávísun á viðtal við vímuefnaráðgjafa en að hringsóla einhvers staðar um í réttarvörslukerfinu. Það er t.d. eitt sem gæti verið ákaflega gott og gagnlegt. Auðvitað eru þeir sem eru teknir með lítilræði af svona efnum og eru að nota þau, annaðhvort í fikti eða vegna þess að þeir eru fíklar, ekkert endilega móttækilegir fyrir hjálp. En það væri þá skárra að reyna það frekar en að rukka þetta fólk um pening, sekta það, eða jafnvel eftir atvikum að viðurlögin verði þyngri ef menn eru kannski að rjúfa skilorð eða eitthvað þess háttar.

Síðan getum við spurt spurningar sem komið var inn á áðan og það er: Af hverju lögleiðum við ekki bara fíkniefni alfarið? Af hverju erum við bara að hugsa um þessa neysluskammta? Af hverju lögleiðum við ekki bara fíkniefni? Væri það ekki bara lausn? Ég er alveg þeirrar skoðunar að það sé umræða sem við þurfum að taka lengra og velta fyrir okkur sem samfélag. En ég hef fylgst mjög vel með þessum málum og þekki þau mjög vel frá mörgum hliðum og við sem samfélag erum komin allt of stutt í umræðunni. Sú umræða er svo rosalega vanþroskuð enn þá að þetta frumvarp yrði þó a.m.k. fyrsta atriðið í slíkri langtímavegferð Það gæti verið byrjun. Hitt gæti síðan komið síðar. Af hverju segi ég þetta? Það er vegna þess að þegar við erum að tala um hvort lögleiða eigi fíkniefni höfum við aldrei tekist á við alls konar spurningar sem fylgja því. Slík breyting myndi kalla á meiri háttar strúktúrbreytingu í samfélaginu og mér finnst eins og fólk hafi ekki alveg áttað sig á því. Við þurfum þá að fara að spyrja okkur spurninga. Hver er það sem á að selja efni? Hvaðan eigum við að kaupa efni? Hver má framleiða efni? Á ríkið að framleiða amfetamín? Mega einkaaðilar kaupa amfetamín einhvers staðar frá og framleiða síðan önnur efni úr því? Mega framtakssamir einstaklingar sækja um einhvers konar leyfi og reisa verksmiðju einhvers staðar við Esjumela og byrja að framleiða fíkniefni? Þetta eru allt saman spurningar sem við erum ekkert að spyrja okkur eða reyna að svara þegar við tölum um stærri spurninguna, hvort við eigum að fara alla leið og lögleiða efnin. Það eru allar þessar siðferðislegu spurningar sem við höfum ekkert verið að takast á um í samfélaginu. Þetta ristir allt svo grunnt, finnst manni, að við erum ekki komin á þann stað að geta farið að leggja slík frumvörp fram á Alþingi. Að minnsta kosti gæti ég ekki stutt þau mál en þetta gæti hins vegar verið ágætisupphaf að því að ganga lengra síðar.

Það er alla vega mikill skaði sem fylgir óbreyttu ástandi. Ég tek undir það sem hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson nefndi hér. Það er full ástæða til þess að þeir sem hafa allt á hornum sér varðandi það að við bregðumst við fíknivanda af meiri manngæsku og mannúð frekar en með hörðum refsingum útskýri hvað það er sem er svona gott við núverandi ástand. Af hverju er það gott að fangelsin okkar séu hálffull af fólki sem hefur atvinnu af því að flytja inn fíkniefni og gróðavonin dregur það áfram, einfaldlega vegna þess að gróðavonin er mikil þegar hlutirnir eru bannaðir og einhvern veginn ofan í einhverju neðanjarðarhagkerfi og menn geta haft alveg óskaplegar fjárhæðir upp úr því að vera í einhverjum slíkum vafasömum bisness? Af hverju er það gott fyrir okkur að láta svona ótrúlegar fjárhæðir í lögregluna, í dómstólana, í öll kerfin okkar til að taka á vanda sem við gætum leyst með miklu mildilegri hætti? Og það er kannski svolítið málið. Við útrýmum ekki þeim vanda sem blasir við samfélaginu út af fíkniefnamálum með frumvarpinu sem við ræðum hér en það er partur af ágætishugtaki sem mikið er notað sem er hugtakið skaðaminnkun. Þetta myndi minnka skaða samfélagsins til mikilla muna, ekki síst ef við tækjum nú það skref að ef einhverjir eru teknir með neysluskammta af lögreglu, jafnvel út af ótengdum málum, fái þeir einhvers konar tilvísun í aðstoð frekar en að fara í hina áttina.

Ég fagna því að þetta mál er komið fram og ég vona að þingheimur taki góða umræðu um það og að málið fái síðan verðskuldaða athygli í þeirri nefnd sem tekur það fyrir að lokinni 1. umr.