152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

hraðari málsmeðferð og bætt réttarstaða þolenda heimilisofbeldis við hjúskaparslit.

173. mál
[18:19]
Horfa

Flm. (Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu í kvöld um hraðari málsmeðferð og bætta réttarstöðu þolenda heimilisofbeldis við hjúskaparslit. Það geri ég fyrir hönd hv. þingmanns og 1. flutningsmanns þessa máls, Hönnu Katrínar Friðriksson. Þessi tillaga er nú lögð fram í annað sinn. Hv. þingmaður mælti með frumvarpi nýlega þessu tengdu sem snýr að breytingum á hjúskaparlögum en markmiðið með tillögunni er að hefja vinnu við nauðsynlegar lagabreytingar, breytingar á reglugerðum sem og verklagsreglum sem nauðsynlegar eru til að bæta stöðu þolenda heimilisofbeldis í því ferli að skilja og enn fremur að leggja grunninn að því að nægt fé sé lagt til málaflokksins. Þessi tvö mál hanga því saman og styðja hvort við annað, ef svo má segja, þ.e. frumvarpið og þessi þingsályktunartillaga sem hér er verið að mæla fyrir.

Verði þessi þingsályktunartillaga samþykkt, sem ég bind vonir við að verði, mun Alþingi fela ráðherra dómsmála og félags- og vinnumarkaðsráðherra að taka til endurskoðunar hjúskaparlög ásamt reglugerð um stjórnsýslumeðferð hjúskaparmála og reglugerð um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknarnefndar svokallaðrar. Þá verður líka tekin til endurskoðunar reglugerð um stjórnsýslumeðferð mála samkvæmt barnalögum og reglur ráðherra um ráðgjöf og sáttameðferð sem settar voru á til bráðabirgða árið 2013. Markmið endurskoðunar og breytinganna sem hér eru lagðar til er að stuðla að hraðari málsmeðferð við hjónaskilnaði, ekki síst til að bæta stöðu þolenda heimilisofbeldis.

Lagt er til að kannaðar verði ólíkar útfærslur sem fela í sér að lögskilnaður verði veittur án þess að fjárskipti eða samkomulag um forsjá barna liggi endanlega fyrir og jafnframt að fólki sé auðveldað að gera þessi skipti, þ.e. fjárskipti og þetta samkomulag um forsjá, án aðkomu dómstóla. Markmiðið og hugmyndafræðin að baki er að betur verði hlúð að hagsmunum þolenda ofbeldis í nánum samböndum þegar brotaþolar eru að leita skilnaðar frá maka sínum og um leið geranda. Jafnframt yrðu ákvæði reglugerðar um skilyrði gjafsóknar rýmkuð og rýmkuð strax þannig að meðferð skilnaðarmála, fjárskipta og forsjármála verði þolendum heimilisofbeldis ekki jafn íþyngjandi og hún er í dag.

Ég held að allir þeir sem hafa innsýn í þann málaflokk og brotaflokk sem ofbeldi í nánum samböndum er, sem við töluðum áður um sem heimilisofbeldi, viti að þetta tímabil á meðan verið er að leita eftir skilnaði og bíða eftir skilnaði er þolandanum og börnunum sem gjarnan fylgja mjög erfiður. Það er því sjálfstætt markmið að þetta ferli taki einfaldlega skemmri tíma en nú er.

Við undirbúning tillögu þessarar og frumvarpsins sem fylgir kom fram að gjafsóknarreglur gagnast því miður ekki nema litlum hluta þolenda ofbeldis í nánum samböndum vegna þess að það er miðað við tekjumörk um það hverjir eiga rétt á gjafsókn og þar hefur gerst, eins og svo oft vill verða í þeim tilvikum þar sem verið er að leggja til tekjumörk í úrræðum um stuðning, að tekjumörkin verða einfaldlega svo lág að þau ná ekki fram markmiði sínu. Þetta hefur þýðingu, ekki síst í ljósi þess að 60% allra kvenna sem lenda í ofbeldissamböndum og búa við ofbeldi inni á heimilum eru samkvæmt rannsóknum í þeirri stöðu um stundarsakir og hverfa af vinnumarkaði, einfaldlega vegna álagsins sem þeirri stöðu fylgir. Því til viðbótar kveða núgildandi gjafsóknarreglur á um það að gjafsókn skuli að jafnaði ekki veita ef ágreiningsefni er á milli nákominna. Þannig að sú meginregla er vitaskuld til þess fallin að hafa áhrif í aðstæðum þegar um er að ræða hjón sem eru að skilja vegna ofbeldis eða að hluta til vegna þess.

Við vitum það, virðulegi forseti, að ofbeldi innan veggja heimilis er ein algengasta tegund ofbeldisbrota sem framin eru á Íslandi. Við þekkjum öll sorglegar sögur og átakanlegar af þessum veruleika þar sem það eru oftast nær konur í þessari stöðu og þá fastar í erfiðum aðstæðum og jafnvel í klóm makans. Það má ekki vera þannig að þegar þolandi tekur þá erfiðu ákvörðun að yfirgefa maka sinn að lögin séu til viðbótar álagspunktur.

Þessi tillaga leggur sem sagt jafnframt til að gerð verði greining á því hver sé mannafla- og fjárþörf sýslumannsembætta til að tryggja í senn vandaða og skilvirka málsmeðferð skilnaðarmála og þeirra mála sem þeim tengjast. Fyrir liggur að fjöldi mála sem sýslumannsembættin þurfa að sinna í þessum málaflokki er mikill og hefur aukist þannig að það hefur reynst sýslumannsembættunum, eins og öðrum stofnunum sem fara með viðkvæm mál, erfitt að afgreiða mál innan þeirra tímamarka sem eðlileg verða að teljast og innan þeirra tímamarka sem við eigum sem samfélag að gera kröfu um. Þetta á ekki síst við þegar við erum að ræða um hjónaskilnað sem á sér rætur í ofbeldi og deilur eru vegna ofbeldisins og um fjármuni og forsjá barna.

Það er mat flutningsmanna að rök standi til þess að auknir fjármunir og mannafli sé nauðsynleg forsenda þess að ná fram betri málshraða og skilvirkara kerfi. Þess vegna er lögð áhersla á það að nauðsynlegt sé að leggja í greiningarvinnu um það hvað þarf mikið til að koma til þess að við getum náð ásættanlegum árangri hvað þetta varðar.

Lagt er til að þessar nauðsynlegu umbætur verði að veruleika og hrint í framkvæmd eins fljótt og auðið er og að frumvarp með breytingum á lögum verði lagt fram, ekki seinna en 1. október 2022 ásamt þeirri greinargerð sem ég vék að rétt áðan um þörfina á fjármagni og mannafla.

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að þessi þingsályktunartillaga, sem á að mínu viti brýnt erindi, ekki síst með það í huga hver umræðan er í dag um ofbeldi og hvernig kerfið okkar, réttarkerfið en líka aðrar stofnanir samfélagsins og samfélagið í heild sinni, geti gert betur að þessu leyti, verði send til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd og það er einlæg ósk mín að þetta mál nái framgangi.