152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál.

20. mál
[18:46]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og get tekið undir hvert einasta orð og þakka ekki síður hv. þingmanni og þeim þingmönnum sem flytja þessa þingsályktunartillögu. Hér er auðvitað um ofboðslega brýnt og mikilvægt mál að ræða. Mig langaði bara að forvitnast hjá hv. þingmanni um reynsluna af þeim verkefnum sem farið hefur verið í, hvort hv. þingmaður hafi eitthvað skoðað það. Ég. sé að þetta mál hefur verið lagt fram áður og ég velti fyrir mér vinnunni sem í gangi hefur verið varðandi barnaverndarmálin sérstaklega annars vegar og svo hins vegar það sem ég man eftir hafandi setið í bæjarstjórnum í einhvern tíma þegar við vorum að auka samstarf milli lögreglu og félagsmálaþjónustu eða barnaverndarinnar þannig að það væri tryggt að fulltrúi barnaverndar væri alltaf viðstaddur þegar lögreglan kæmi að í slíkum málum.

Upplýsingar sem ég fékk af reynslu þess verkefnis var að það hefði verið alveg gríðarlega mikilvægt, það jók kærurnar í þessum málum, mig minnir að lögreglan hafi talað um að þegar glugginn væri opinn, þegar fólk væri tilbúið að tjá sig því svo breytast hlutirnir oft hratt og bara með mjög skömmum fyrirvara og þá telja þeir sem hafa þolað ofbeldið þetta er bara allt í lagi og mun ekki gerast aftur. Allar þær upplýsingar sem ég fékk frá lögreglunni á sínum tíma og barnaverndaryfirvöldum um þetta verkefni voru að það hefði reynst mjög vel. En nú verð ég að viðurkenna að ég þekki ekki hvort sams konar verkefni hafa verið í gangi víða á landinu. Í þessu tilfelli var það í Mosfellsbæ og ég veit að það var hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég veit að hv. þingmaður kemur úr Suðurkjördæmi og þekkir kannski til á Selfossi og í nágrannabyggðum, hvort sú reynsla sé til staðar víðar en á höfuðborgarsvæðinu.