152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál.

20. mál
[18:49]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar og tek undir mikilvægi þess þegar maður hefur heyrt af áhugaverðum og góðum verkefnum sem hafa skilað góðum árangri. Þá er einmitt spurningin: Erum við að dreifa þessari þekkingu víðar þannig að við séum að taka upp þessi kerfi? Ég skil hv. þingmann þannig að þessi vinna eigi að ganga akkúrat út á það. En í umræðu um þessi mál hef ég oft orðið vitni að því að þeir sem vinna með börnum, kannski sérstaklega í leikskólum, grunnskólum og jafnvel í íþrótta- og tómstundastarfi og eru auðvitað lögum samkvæmt, fyrir utan auðvitað samfélagsleg ábyrgð, ábyrgir fyrir því að tilkynna um slíkt brot, þessum aðilum líður svo oft þannig að það virki ekkert, hafi engin áhrif af því að það gerist ekkert. Ég veit, þekkjandi svolítið til í kerfinu, að það snýst auðvitað um persónuvernd og þegar tilkynningar hafa borist er það ekki þannig að sá sem tilkynnir fái einhverjar upplýsingar um framvindu mála. Ég hef samt oft velt fyrir mér hvort það sé einhver leið samt sem áður til að fullvissa fólk um að málið sé í farvegi og í góðum höndum. Kannski á það sérstaklega við vegna þess að ég hef svo oft tekið þetta samtal við kennara sem hafa verið í þessari stöðu og stundum hefur komið upp ákveðin vantrú á kerfið af því fólk heldur að það sé ekkert að gerast. Ég beini því þess vegna inn í þessa vinnu hvort það sé ekki líka svolítið hluti af þessu. Það er svo mikilvægt að við trúum og treystum á kerfið þó að það sé þannig að það þurfi eðli málanna samkvæmt að vera lokað og ekki hægt að upplýsa um hvað er að gerast. En það þarf einhvern veginn að breiða út þá trú og traust almennings á því að þrátt fyrir það þá sé verið að vinna í málinu.