152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.

91. mál
[18:52]
Horfa

Flm. (Jódís Skúladóttir) (Vg):

Frú forseti. Hér er lagt fram í 16. sinn, ég endurtek, í 16. sinn, frumvarp til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og banni við umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Mikilvægt er að Ísland hafi frumkvæði að afvopnun og friðlýsingu fyrir kjarnorkuvopnum innan lögsögu sinnar til himins og hafs og bindi þar með í lög yfirlýstan vilja íslenskra stjórnvalda um að Ísland eigi engan þátt í þróun, geymslu eða flutningi kjarnorkuvopna og stuðli þannig að friðvænlegri heimi. Hernaður og vígvæðing er í sífelldri þróun um heim allan. Víða auka þjóðir heims við kjarnorkubyrðar sínar frekar en að eyða þeim. Þetta á við í viðkvæmum heimshlutum sem og í Vesturheimi. Kjarnorkuveldin Bandaríkin og Rússland eiga hvort um sig meira af kjarnorkuvopnum en heimsbyggðin til samans í trússi við alþjóðlegar skuldbindingar um að dreifa ekki kjarnavopnum og almenna afvopnun þeirra, samanber NPT-samninginn. Þó hefur þróun friðarmála heldur verið á jákvæðari nótum undanfarna áratugi. Flest ríki heims viðurkenna hættuna sem stafar af gereyðingarvopnum og hafna hinni öldnu kenningu um gagnkvæmt ógnarjafnvægi. Sagan segir okkur þó að hernaðarbrölt getur þróast á ógnarhraða og með skelfilegum afleiðingum.

Það er áhugavert að fara þarf norður fyrir miðbaug til að finna land sem ekki hefur skrifað undir samning um friðlýsingu fyrir kjarnorkuvopnum. Alls eru fimm fjölþjóðlegir sáttmálar um bann við kjarnorku. Suðurhvel okkar ágætu jarðar er meira og minna friðlýst og enn er unnið að friðlýsingum, nú síðustu ár að friðlýsingu Mið-Austurlanda fyrir kjarnorkuvopnum. Ekki hefur tekist að friðlýsa Norðurlönd fyrir kjarnavopnum sem verður að teljast undarlegt í ljósi þeirrar stöðu og áferðar sem Norðurlöndin hafa í alþjóðasamfélaginu. Það er því mikið unnið með friðlýsingu og frumkvæði Íslands að afvopnun og friðlýsingu fyrir kjarnorkuvopnum, bæði fyrir land og þjóð en ekki síst fyrir norðurslóðir, hvert kjarnorkuveldin horfa hýru auga með tilliti til flutninga um norðurskautið. Fjöldi stórborga og sveitarfélaga um allan heim eru friðlýst fyrir umferð kjarnavopna. Íslensk sveitarfélög hafa flest öll sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að friða verði landið frá kjarnorkuvopnum og umferð þeirra. Einungis eru það Reykjanesbær, Skútustaðahreppur og Grímsnes- og Grafningshreppur sem hafa ekki friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum. Ekkert er því til fyrirstöðu að vilji yfirgnæfandi meiri hluta sveitarfélaganna um friðlýsingu verði lögfestur fyrir landið allt.

Sú gagnrýni hefur komið fram í umræðum um friðlýsingu Íslands gegn kjarnavopnum að frumvarpið gangi gegn hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Því er vert að taka fram að alþjóðlegar skuldbindingar Íslands sem snúa að hafrétti tryggja skipum í neyð aðstoð innan lögsögu Íslands. Þetta er áréttað í 10. gr. frumvarpsins en greinin fjallar um undanþágur vegna alþjóðlegs réttar og heimild til að liðsinna skipum í neyð. Á Íslandi er herlaus þjóð sem hefur byggt utanríkisstefnu sína á friði og mannúð. Þar höfum við í VG staðið í stafni. Ég tel að þetta mál sem mælt er fyrir í 16. sinn, eins og fram hefur komið, væri einkar farsælt fyrir friðarmál á norðurslóðum, fyrir Ísland og fyrir frið í heiminum.