152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

gögn frá Útlendingastofnun.

[13:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Ég vil eindregið taka undir þessi tilmæli hv. þingmanna hér á undan. Þetta er algjörlega óboðlegt og þá er orðin veruleg stefnubreyting í samskiptum nefndar, í þessu tilviki undirnefndarinnar varðandi ríkisborgararéttinn, og ráðuneytisins. Það þarf að komast á hreint hvort þetta er markvisst af hálfu ríkisstjórnar og ráðherra sem fer með þennan málaflokk. Þingnefndin og þingmennirnir sem vinna að því að fara yfir gögn varðandi ríkisborgararéttinn verða að hafa aðgang að öllum gögnum. Það er réttur okkar og skylda til að við getum sinnt því hlutverki sem við höfum skrifað undir, það er stjórnarskrárvarinn eiður. Mér finnst þetta afskaplega bagalegt en um leið er þetta í algeru samræmi og samhengi við það hvernig núverandi ríkisstjórn umgengst þingið.