152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

gögn frá Útlendingastofnun.

[13:42]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram. En við förum að lögum hér, okkur ber að gera það. Í 6. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt segir að Alþingi veiti ríkisborgararétt með lögum. Áður en umsókn um ríkisborgararétt er lögð fyrir Alþingi skuli Útlendingastofnun fá um hana umsögn lögreglustjóra á dvalarstað og enn fremur skuli Útlendingastofnun gefa umsögn um umsóknina. Annað ekki.

Frú forseti. Það hefur gerst á undanförnum árum að breyting hefur orðið á verklagi við umsókn um ríkisborgararétt. Ég get talað af reynslu af því að ég var að aðstoða fólk við umsóknir af þessu tagi. Áður fyrr, fyrir ekki svo mörgum árum, sendum við umsóknir um ríkisborgararétt beint til Alþingis þegar verið var að sækja um í gegnum Alþingi. Nú fer þetta allt fram í gegnum þessa stofnun sem síar út umsóknir og verður ekki við beiðni almennings sem sækir um, veitir ekki Alþingi upplýsingar um raunverulega umsækjendur. (Forseti hringir.) Ég legg til að við förum núna í skoðun á þessu og breytum þessu verklagi til baka, enda er engin lagastoð fyrir þessu. Það eru við sem stjórnum hér.