152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

gögn frá Útlendingastofnun.

[13:46]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Frú forseti. Ég kem hingað til að taka undir það sem hér hefur verið sagt. Þetta er auðvitað glórulaust. Og það að við sem sitjum í allsherjar- og menntamálanefnd, við sem sitjum í undirnefndinni, bíðum gagna á meðan þessi hringavitleysa milli stofnunar og ráðuneytis, þar sem hver vísar á annan, er að leysast er óboðlegt. Ég vil minna á að reglurnar voru á heimasíðu Útlendingastofnunar til 1. október. Umsækjendur greiða fyrir þessar umsóknir sem ber að vísa til Alþingis. Því verður að fara eftir þessum lögum. Það er náttúrlega bara galið að stofnun eða ráðuneyti ætli einhliða að breyta vinnureglunum.

Ég ætla líka að bæta því við að við erum sjálfsagt mörg sammála því að umsýslunni þarf að breyta. Hún er ekki frábær eins og hún er. En það verður ekki gert með einhliða ákvörðun sem okkur ber svo að fara eftir. Það virkar ekki þannig.