152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

gögn frá Útlendingastofnun.

[13:51]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Við erum með lög um veitingu ríkisborgararéttar. Annars vegar er það með stjórnvaldsákvörðun hjá Útlendingastofnun og hins vegar með lögum. Þeir umsækjendur sem senda inn umsögn sína til Alþingis gera það vegna þess að þeir uppfylla ekki skilyrði til að fá veitingu ríkisborgararéttar með stjórnvaldsákvörðun. Fyrir því kunna að vera margar ástæður; skortur á skilríkjum frá heimalandi, skortur á lesskilningi, að fólk sé ólæst og geti því ekki farið í gegnum íslenskuprófið, Íslendingar sem hafa misst ríkisborgararétt sinn en hafa ekki uppfyllt skilyrði til búsetu o.s.frv. Þetta er neyðarúrræði þar sem Alþingi grípur inn í. Það er nauðsynlegt að hafa það og á ekki að breyta því. Þetta eru um 25 umsóknir á ári (Forseti hringir.) og ég held að við séum ekkert of góð til þess.

Ég legg til að Alþingi (Forseti hringir.) breyti fyrirkomulaginu vegna þessa ástands, (Forseti hringir.) auglýsi eftir umsóknum, sendi út auglýsingu um að umsækjendur sem bíða milli vonar og ótta (Forseti hringir.) sendi umsóknir sínar beint til Alþingis svo að nefndin fái þær upplýsingar beint.