152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

gögn frá Útlendingastofnun.

[13:54]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er hluti af stærra vandamáli sem er það að Útlendingastofnun virðist stundum hegða sér eins og einhvers konar ríki í ríkinu. Dæmi um þetta er þegar trekk í trekk er brotið á rétti umsækjenda um alþjóðlega vernd og jafnvel af ásettu ráði eins og úrskurðarnefnd útlendingamála hefur margsinnis þurft að benda á. Hver hafa viðbrögð framkvæmdarvaldsins verið við því, þ.e. viðbrögð þeirra ráðherra sem hafa farið með yfirstjórnunar- og eftirlitsskyldur gagnvart stjórnsýslu útlendingamála á Íslandi? Eiginlega engin. Það er bara þannig. Hér er enn eitt dæmi um þetta, að stofnunin hegði sér eins og einhvers konar ríki í ríkinu, telji sig einhvern veginn hafna yfir lög og reglur og þá ferla sem hér hafa tíðkast og eru lögbundnir. Ég held að þetta, eins og svo margt annað, hljóti að geta orðið okkur áminning um að endurskoða þurfi þetta kerfi frá grunni og þau lög og þær reglur sem stofnunin starfar eftir.