152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

strandveiðar.

[14:11]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Hún orðaði það sem svo að eina valið hefði verið að skerða þorskveiðiheimildir hjá þeim sem þola skerðingar. Ég ætla að leyfa mér að vera ósammála því að smábátasjómenn þoli skerðingarnar best og það kemur m.a. til af því hvernig reglurnar eru. Við erum með einn pott og mörg hólf og þorskurinn syndir sína leið vestur og norður fyrir landið að vori og sumri. Er ekki möguleiki að hæstv. ráðherra skoði það af fullri alvöru að breyta reglunum þannig að þegar kemur að hólfum fyrir norðan land eða svæðum fyrir norðan og austan land verði ekki komið fram á mitt sumar og heimildirnar uppurnar? Í því er engin sanngirni. Í því er engin byggðastefna. Það hlýtur að vera hægt að finna lausnir á því sem una má við og tryggja skynsamlega úthlutun á næsta sumri.