152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

strandveiðar.

[14:12]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Svo það sé sagt strax í byrjun var það óheppilegt orðalag hjá mér að tala um að þola skerðingar. Það var alls ekki mín meining heldur miklu frekar að ég stóð frammi fyrir því að þurfa að ganga í þetta þar sem það var yfir höfuð hægt, þar sem ekki var þegar búið að taka ákvarðanir sem ekki var hægt að taka til baka. Ráðstöfun aflamagns til strandveiða var því skert um 15% og til almenns byggðakvóta sveitarfélaga um 20%. Þeir skiptimarkaðir sem eiga enn eftir að eiga sér stað munu vonandi verða til þess að hægt verður að bæta í strandveiðipottinn þannig að lokaniðurstaðan verði minna en þessi 15% breyting. Það er auðvitað mjög erfitt að áætla hver er þörfin á þorskkvóta yfirleitt til þess að allir fái sitt. Og þegar við erum að tala um þennan hluta kerfisins er það staðreynd að undanfarin ár hefur líka þurft að stöðva veiðar áður en tímabilinu var lokið vegna þess að við erum undir því þaki sem ráðgjöf Hafró setur okkur. En ég hef hug á því (Forseti hringir.) að fara sérstaklega í það, í samræmi við stjórnarsáttmála og alveg örugglega gríðarlega þörf, að skoða ítarlega (Forseti hringir.) með hvaða hætti þessi hluti fiskveiðistjórnarkerfisins nýtist í þágu atvinnu og byggða í landinu.