152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

staðan í sóttvörnum.

[14:18]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það er bara varla að ég trúi því að þetta hafi ekki verið skoðað neitt á þessum fimm dögum, hafandi það í huga að Landspítalinn er á neyðarstigi vegna mönnunar. Það er verið að tína til starfsmenn héðan og þaðan úr einkageiranum til að bjarga málum í horn, ráða björgunarsveitir til að sitja yfir og þar fram eftir götunum, og mögulega eru 50 til 70 starfsmenn Landspítalans í einangrun með gamalt smit, óvirkt smit. Og þetta er ekki einu sinni skoðað. Það er hreinlega ótrúlegt. Ég vil spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Ætlar hann að nálgast þetta með óbreyttum hætti og ekki einu sinni láta skoða hvort það geti verið raunin að 50 til 70 starfsmenn Landspítalans séu í stofufangelsi með óvirkt smit? Ég hreinlega trúi því ekki eins og staðan er núna, með Landspítalann á neyðarstigi og verið að tína til starfsmenn úr einkageiranum, héðan og þaðan úr borginni. Spurning mín í seinni ræðu er: Ætlar hæstv. ráðherra að láta athuga þetta?