152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

úthlutun strandveiðiheimilda.

[14:28]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Árið 2021 var heimild til að veiða 10.000 tonn af þorski í strandveiðikerfinu, um 750 tonnum minna en veitt var árið 2020 en hafði verið vaxandi ár frá ári fram að því. Í ár á hins vegar að færa umfang strandveiðikerfisins niður í það sem það var árið 2016, 20% minnkun í rauninni frá 2020. Á síðasta ári var veiðum sjálfhætt þann 20. ágúst vegna skerðingarinnar frá árinu áður og miðað við síðasta ár verður strandveiðum lokið þann 21. júlí í ár. Þá hverfur rúmur mánuður af fjögurra mánaða veiðitímabili.

Staðan í sjávarútvegi er mjög skrýtin. Samkvæmt lögum er sett hámarksaflahlutdeild sem ekkert fyrirtæki eða tengdir aðilar mega fara yfir. En samt gerist það. Tekjur þjóðarinnar af sjávarauðlindinni eru að meðaltali 500 milljónir á ári eftir kostnað, á meðan hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja hefur verið um 40 milljarðar á ári undanfarinn áratug. Ef arðgreiðslur eru skoðaðar eru það um 9 milljarðar á ári, átjánfalt meiri hagnaður en þjóðin fær. Ofan á þetta allt leggst síðan niðurstaða mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um að núverandi úthlutun á veiðiheimildum brjóti í bága við 26. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi um jafnrétti allra manna.

Spurningar mínar til ráðherra eru því mjög einfaldar. Annars vegar: Væri ekki tilvalið að úthluta þeim afla sem sum fyrirtæki eru með umfram lagalegar heimildir, til strandveiða í staðinn? Af hverju megum við láta þessi fyrirtæki fá þennan afla sem þau eiga ekki rétt á að fá? Hins vegar: Er það, miðað við svör ráðherra, ætlun ráðherra að svæfa breytingar á kvótakerfinu þetta kjörtímabil? Eru þær bara í salti út af samstarfsflokkunum? Og er það þá bara mannréttindabrotið kvótakerfi sem er stefna VG þetta kjörtímabil?