152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

úthlutun strandveiðiheimilda.

[14:30]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna og stutta svarið er nei, eðlilega. Ég skil reyndar ekki alveg forsendur hv. þingmanns þegar hann fer hér mikinn og talar um að ég ætli að svæfa allar breytingar o.s.frv. Ég vil nú vísa til þess að ég hef talað mjög skýrt fyrir því að það þurfi að gera breytingar á kerfinu. Ég hef talað mjög skýrt fyrir því að það þurfi að liggja til grundvallar ákveðnar meginforsendur að því er varðar umgengni við auðlindina, að því er varðar efnahagslega stöðu greinarinnar en ekki síst það sem á tyllidögum er talað um sem samfélagslega sátt. Það er mikilvægt. En það er um leið þannig að við þurfum að skoða hvernig við háttum þessum málum hér í samanburði við löndin í kringum okkur, hvað í kerfinu hefur virkað og hvað hefur ekki virkað. Það er það sem mér er ætlað að gera og það sem ég hef tekið að mér að gera með því að setjast í embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að leggja grunn að því að það liggi betur fyrir hvernig hægt er að auka gagnsæi í rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi og sérstaklega meðal stærstu fyrirtækjanna. Það verðum við að gera. Við verðum að hámarka möguleika okkar til frekari árangurs og til aukinnar samfélagslegrar sáttar um umgjörð greinarinnar. Ég veit að það eru, hvað á ég að segja, bjartsýnar spár sem segja að það sé eitthvað sem hægt er að gera en ég veit að Alþingi hefur tekist á við flókin verkefni, til að mynda hvað varðar heimsfaraldur og efnahagsaðgerðir á ögurstundu. Þarna er um að ræða einn af hornsteinum íslensks atvinnulífs og gjaldeyrisöflunar þannig að það er mjög mikilvægt að við freistum þess að reyna að ná betri samstillingu (Forseti hringir.) um þetta heldur en við höfum getað áður. Ég vænti þess að hv. þingmaður átti sig á því hvaðan ég er að koma í minni nálgun á það verkefni.