152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

færsla aflaheimilda í strandveiðum.

[14:35]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil eins og aðrir samþingmenn mínir beina spurningum til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og óska henni velfarnaðar í starfi. Mikil vinna var lögð í strandveiðarnar, þverpólitísk, í atvinnuveganefnd á síðasta kjörtímabili, undir forystu Vinstri grænna, að breyta kerfinu til réttlætis, jafnræðis og með öryggi sjómanna í huga, auka aflaheimildir og tryggja 48 daga. Það eina sem var eftir var að tryggja sveigjanleika í 5,3% kerfinu og tryggja 48 daga til strandveiðanna sem eru einhverjar umhverfisvænustu veiðar sem hugsast getur, með handfærum. Sameinuðu þjóðirnar tala um að árið í ár eigi að vera ár sjálfbærni og hvað er sjálfbærara en handfæraveiðar við strendur Íslands?

Á síðasta ári voru veidd á strandveiðum rúm 11.000 tonn og kláruðust þau 18. ágúst. Nú eru einungis 8.500 tonn sem reikna má með að klárist um miðjan júlí. Þá held ég að lítið verði til skiptanna fyrir þá báta sem veiða best og hafa mesta fiskgengd á Norður- og Austurlandi. Þá verður ákall um að umbreyta því kerfi sem komið var á á síðasta kjörtímabili til fyrra horfs og fara að skipta aflaheimildum, eftir dúk og disk, niður á landsvæði. Það er ekki gott og það myndi kollsteypa kerfinu.

Ég skora því á hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að leita allra leiða til að tryggja strandveiðar í sumar. Ég mun leggja fram frumvarp sem mælir fyrir því að það verði mögulegt að færa aflaheimildir úr þessu kerfi, 5,3%, yfir á þetta ár til að tryggja strandveiðar. Það er gerlegt og það er innan vikmarka aflareglu sem Hafrannsóknastofnun fer eftir í úthlutun aflaheimilda.