152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

færsla aflaheimilda í strandveiðum.

[14:40]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það sem ég er að boða hér og í mínum málflutningi þarf ekki að ganga gegn vísindalegri ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Það eru til leiðir og við þekkjum það, fólk hér inni, þingmenn hér inni, að aflaheimildir hafa verið færðar á milli fiskveiðiára og það hefur ekki verið litið á það sem að fara gegn vísindalegri ráðgjöf. Stórútgerðir hafa gert það og fengið að gera það margsinnis og með tegundatilfærslu er verið að gera það á milli ára. Það er hægt að flytja aflaheimildir milli ára til að tryggja strandveiðar. Vilji er allt sem þarf.

Og varðandi fleiri úttektir og skýrslur þá lét atvinnuveganefnd gera fína úttekt á byggðafestu strandveiða á síðasta kjörtímabili sem liggur fyrir, mjög góð úttekt hjá Byggðastofnun. Það þarf ekki alltaf endalausar skýrslur um sömu hlutina heldur að nýta það sem búið er að leggja mikla vinnu í. Það hefur sýnt sig að strandveiðar hafa veitt fjölmörgum (Forseti hringir.) mikla atvinnu og umsýslu í sjávarbyggðum landsins. Það var landað í (Forseti hringir.) 51 bæjarfélagi á síðasta ári.