152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

færsla aflaheimilda í strandveiðum.

[14:41]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hvatninguna til mín í embætti mínu og öðrum þeim þingmönnum sem tekið hafa til máls um strandveiðar. Ég skynja það á þeirri umræðu sem hér hefur verið í fyrirspurnatímanum að þetta er mál sem snertir okkur mjög mörg, einmitt vegna þess að í grunninn er um að ræða réttlætismál. Það er í grunninn um það að ræða að við séum að gefa fleirum tækifæri til að taka þátt í að hasla sér völl í sjávarútvegi og byggja þar með upp byggðirnar í landinu. Það er meginhugsunin, það er meginnálgunin. Það var mikilvægt á sínum tíma, á árinu 2009, það er og verður áfram mikilvægt. Það verður þó ekki fram hjá því litið að veiðiráðgjöf Hafró hefur ekki verið lægri fyrir þorsk í sjö til átta ár, þar til í dag, og það hefur afgerandi áhrif, það er bara staðreynd. Ég tek hvatningu hv. þingmanns í þá veru að horfa til þeirra samantekta og skýrslna sem hér hafa verið gerðar (Forseti hringir.) og liggja fyrir vegna þess að þar slær mitt hjarta og þar vil ég vinna áfram. En eftir sem áður liggur það algerlega fyrir að veiðiráðgjöf Hafró er grundvöllur ákvarðana minna.