152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

efnahagslegar ráðstafanir vegna Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[14:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skal fúslega greina frá því að það hefur verið dálítið vandasamt verk að setja saman þessar aðgerðir. Þó að við höfum legið yfir þessu frá því í nóvember, þegar við vorum að leggja lokahönd á fjárlög fyrir komandi ár, þá er það ekki fyrr en í dag sem ég kem með nýjustu tillögurnar. Það sem hefur áhrif hérna er að við sáum að það dró gríðarlega mikið úr eftirspurn eftir flestum úrræðum eftir því sem líða tók á árið 2021, við sáum fram á að það myndi fjara undan þörfinni fyrir flest úrræðanna og það væri þá ágætt að við myndum standa við það hversu lengi þau ættu að gilda. En síðan snúast vindarnir. Við fáum nýtt afbrigði til sögunnar og það reynist nauðsynlegt að fara aftur að þrengja að opnunartíma. Fyrstu augljósu viðbrögðin við því voru að segja: Þeir sem verða fyrir herðingum á samkomutakmörkunum sérstaklega, við munum byrja á því að styðja við þá. Það eru þá hugmyndirnar um sértækan stuðning til veitingageirans. Í kjölfarið fylgdu síðan lokunarstyrkirnir, framhald á þeim, og skömmu síðar sáum við fram á þörf fyrir að dreifa greiðslu opinberra gjalda af fyrri hluta ársins yfir á síðari hluta ársins eins og ákveðið hefur verið. Við höfum í raun og veru bara verið að rýna hagrænu gögnin alveg fram á þennan dag. Það sem við sáum núna síðast er að það hefur slegið aðeins niður í veltu, sérstaklega kortaveltu, á fyrstu vikum þessa árs. Ég er að reyna að svara hv. þingmanni með því að segja: Ég var þeirrar skoðunar strax í upphafi að við ættum fyrst og fremst að vera með sértækar aðgerðir fyrir þá sem væru í mestri þörf en tillagan um að koma núna með framlengingu á almennu viðspyrnustyrkjunum sýnir að því til viðbótar er þörf fyrir ákveðinn almennan breiðan stuðning.