152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

efnahagslegar ráðstafanir vegna Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[14:56]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningu minni. Hann talar um að dregið hafi úr eftirspurn eftir úrræðum og það þurfi að styðja veitinga-, menningar- og listageirann sem er í mestum vanda að hafa orðið fyrir þessum lokunum. Ég er sammála um það. En ég er að spyrja hvort það hefði verið skynsamlegt akkúrat núna rétt fyrir áramót að ráðast í framlengingu á Allir vinna sem kostar 8 milljarða. Hefði verið hægt að nýta þá peninga til þess að styðja þá sem voru í enn þá meiri vanda? Það er það sem ég er að spyrja um.

Svo langar mig líka til að ræða það aðeins að núna þegar við erum að sigla út úr þessu þá þekkjum við það öll að í kreppu geta skapast aðstæður þar sem samþjöppun verður óhjákvæmilega mjög mikil í ýmsum greinum. Hún getur auðvitað alveg verið af hinu góða að einhverju marki en hún getur líka orðið of mikil. Ég vil fá að heyra hvort hæstv. ráðherra hafi áhyggjur af því að samþjöppun í atvinnulífinu geti orðið of mikil, hvort eignarhaldið færist á fáar hendur, hvort verðmætustu störfin flytjist jafnvel úr fámenninu og hingað í þéttbýlið, hvort við munum sitja uppi með miðstýrðari, einsleitari og kannski fátæklegri ferðaþjónustu, svo ég nefni það bara sem dæmi, eða hvernig hann sér þetta fyrir sér. Og mig langar að heyra hvort hæstv. ráðherra hafi látið gera einhverjar greiningar á því hvernig þróunin er innan einstakra greina og hverjar niðurstöðurnar hafa orðið.