152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

efnahagslegar ráðstafanir vegna Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[15:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er kannski helst að nefna hér áform um að framlengja almenna úrræðið fyrir viðspyrnustyrki. Það er úrræði sem rann út í lok nóvember og við erum að ræða um það að leggja fyrir þingið tillögu um að framlengja það þannig að tíminn frá 1. nóvember falli ekki niður heldur verði hægt að sækja um styrki vegna desember, janúar, febrúar og mars. Í viðspyrnustyrkjaúrræðið sóttu einmitt mjög margir einyrkjar og aðilar með lítinn atvinnurekstur. Þar er um að ræða úrræði sem miðast fyrst og fremst við lítil fyrirtæki, liggur mér við að segja, vegna þess að hámarksstyrkur á mánuði er um 2 milljónir og reynslan hefur sýnt að það getur gagnast aðilum af þeirri tegund sem hv. þingmaður nefnir. Hins vegar verður alltaf erfitt að tjá sig um þetta almennt vegna þess að það er svo misjafnt hvort fólk starfar sem launamenn í bransanum eða hvort það er með eigin rekstur o.s.frv. Það mun líka skipta miklu máli að við erum að setja um 400 milljónir í menningargeirann í gegnum hina ýmsu sjóði sem þar eru, sem mun þá auka umsvif í þeim geira. Það mun án vafa skila sér til þeirra sem byggja afkomu sína á því að eitthvað sé um að vera á því sviði, að það séu einhverjir viðburðir í gangi. Þarna held ég að við séum með a.m.k. tvenns konar úrræði sem geti létt undir með og stutt við alla þá sem eru starfandi í sviðslistum í víðum skilningi.