152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

efnahagslegar ráðstafanir vegna Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[15:05]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Mig grunar að það séu alvarlegri erfiðleikar sem blasi við þeirri stétt sem ég var að vísa til áðan en svo að vonin um gigg á næstu vikum og mánuðum muni leysa þann vanda. Þetta er gleymda stéttin, þetta er huldufólkið sem passaði ekki inn í skapandi greina-styrkina og ekki beinlínis heldur í hina. Kannski hafði eitthvað af þessu fólki lent í því að forgangsröðunin, starfslaunakostnaður og önnur gjöld urðu undan á t.d. skattgreiðslum og þar með eru menn fallnir algerlega úr leik og eru illa staddir margir.

En ég ætla bara að halda mig á björtu nótunum því að það eru vonandi bjartari tímar fram undan, búið að boða niðurfellingu afarkostanna sem við höfum búið við, það hvernig frelsi og ábyrgð vegast á er búið að halla á okkur. Maður er manns gaman og það að geta ekki hitt fólk og lyft sér upp og notið menningar, lista og alls þess sem samfélagið býður okkur upp á hefur verið mjög þungbært.

Ég vil nota þetta tækifæri, þó að það sé ekki beint innan umræðuefnisins, til að horfa aðeins fram á veginn, á þennan þingvetur, og spyrja, með hliðsjón af þeim sem verst eru staddir í samfélaginu, hvort nokkuð sé því til fyrirstöðu að hefja alvöruundirbúning þess sem margsinnis er búið að boða og heitir heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins í þágu hinna verst settu í samfélaginu.