152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

efnahagslegar ráðstafanir vegna Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[15:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er sú stefna að fara ekki í flatan niðurskurð í opinberum rekstri heldur verja góða opinbera þjónustu. Það er sú stefna að fara í fjárfestingarátak þrátt fyrir hallarekstur. Það er stefna sem hefur til lengri tíma byggt á því að viðhalda lágum opinberum skuldum þannig að ef á þyrfti að halda gætum við haft greiðan aðgang að fjármálamörkuðum, sem við höfum notið góðs af. Það er stefna sem byggist á því að setja fjármuni í nýsköpun, rannsóknir og þróun; við trúum því að þeim fjármunum sé vel varið, að þeir muni skila sér vel til baka. Það er stefna sem byggist á því að fara ekki í skattahækkanir, frekar að skoða hvort skynsamlegra væri að létta undir með þeim sem við þurfum að halda lífi í. Það er stefna sem hefur birst í því að við höfum sett risafjárhæðir, eins og ég rakti hér áðan, marga tugi milljarða, í beinar stuðningsaðgerðir til fyrirtækjanna.

Þetta eru nokkur meginatriði stefnunnar sem við höfum verið að fylgja. Af hálfu Seðlabankans var látið í það skína að við gætum mögulega beitt magnbundinni íhlutun en sem betur fer var ekki þörf á því að gera það. Ég myndi hafa miklar áhyggjur af stöðunni í þeim löndum þar sem það hefur verið gert í of miklum mæli vegna þess að við sjáum verðbólgutölurnar hækka mjög mikið. Verðbólga er að grafa undan lífskjörum lágtekjuhópa og við eigum að fagna því að ekki hafi reynst þörf á slíku hér.

Sú stefna sem ég vil standa fyrir fram á við litið er að ná endum saman, trúa því að í hagkerfinu verði til fyrirtæki og hugmyndir. Ef stjórnvöld stuðla að því að hér sé skapað samkeppnishæft umhverfi mun mikill kraftur leysast úr læðingi sem býr í fólkinu í landinu. Þetta erum við að sjá raungerast nú þegar í því að hagvaxtartölur fram á við litið eru sífellt að batna (Forseti hringir.) og aukinn hagvöxtur mun hjálpa okkur að stöðva skuldahlutföllin.