152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

efnahagslegar ráðstafanir vegna Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[15:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þeir stjórnarflokkar sem nú starfa saman hafa þegar sýnt það í fjármálaáætlun, og nú síðast með fjármálastefnunni, hvernig stöðva á skuldasöfnun á næstu árum. Það getur vel verið að hv. þingmaður telji mikilvægt að við svörum því líka hvernig hlutföllin verði á milli afgangs í ríkisfjármálum og skuldasöfnunarinnar þessi misserin eftir 28 ár. Ég held að það sé bara umræða sem verður að taka einhvern tímann síðar. Núna erum við með blæðandi opið sár í ríkisrekstrinum sem birtist í gríðarlega miklum halla. Ég hef varið þennan mikla halla vegna þess að við erum á sama tíma með áætlun um það hvernig við lokum skuldasöfnuninni. Nú mun reyna á það, m.a. við fjármálaáætlunargerð í vor og fjárlagagerðina næstu árin, hvort það tekst hér alvörusamstaða í þinginu um að halda þessu striki, vegna þess að í dag eru tveir skólar að takast á um það hvernig eigi að fara út úr þessari krísu. Annar skólinn segir að þessi halli skipti engu máli, það megi bara bæta 100 og 200 milljörðum við hann hvenær sem er og svo finni menn út úr því seinna, það muni ekki springa út í verðbólgu. Hinn skólinn, og það er skólinn sem ég tel miklu skynsamlegra að fylgja, er með trúverðugar raunhæfar áætlanir um það hvernig menn ná endum saman að lokum, hvernig menn stöðva hallareksturinn, hvernig frumjöfnuði verði náð að nýju og hvernig við reynum að örva hagvöxt í hagkerfinu þannig að skuldahlutföllin hætti að versna. Góðu fréttirnar fyrir okkur eru þær að skuldahlutföllin eru þrátt fyrir allt mjög fín í alþjóðlegum samanburði en við erum þó sérstaklega á krónuendanum með talsverða vaxtabyrði. En raunvaxtastigið hjá ríkissjóði er þó ekki hátt, það er hægt að segja að í óverðtryggðu skuldunum höfum við í raun og veru verið með neikvæða vexti. Engu að síður þá er þetta vaxtabyrði sem ryður frá sér (Forseti hringir.) og þrengir að svigrúmi til að fara í önnur uppbyggilegri mál.