152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

efnahagslegar ráðstafanir vegna Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[15:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að koma inn á þróun á starfsmannafjölda hins opinbera. Fjármálaráðuneytið birti þann 15. desember um skýringar eða sjónarhorn á þessa þróun. Það sem hafði verið í umræðunni var að opinberum starfsmönnum hefði fjölgað um 9.000. En þegar við rýnum gögnin, ef við teljum bara hausana, er talan ekki 9.000 heldur 7.300. Þegar við skoðum aðeins dýpra og spyrjum okkur: Eru þetta 7.300 einstaklingar í fullu starfi? Þá er það nú ekki svo, heldur eru ársverkin 4.800, sem er þá orðið u.þ.b. helmingurinn af tölunni sem er í umræðunni. Og þegar við skoðum síðan þá tölu, 4.800, og spyrjum um hversu margir þeir eru sem starfa hjá ríkinu á móti sveitarfélögunum, þá kemur í ljós að meiri hlutinn er hjá sveitarfélögunum. Þannig að fjölgunin er ekki þetta mikil hjá ríkinu.

Ef við skoðum síðustu tíu ár hefur ársverkum hjá ríkinu fjölgað um 11,5%, sem ég verð nú að segja er talsvert, en fjölgun íbúa á sama tíma hefur verið 16%, þannig að í því samhengi hefur ríkisstarfsmönnum fækkað sem hlutfalli af íbúum landsins. Það breytir því ekki að mér þykja þetta vera háar tölur og ég hef verið að beita mér fyrir ýmsu sem ætti að vera til þess fallið að draga úr mannaflaþörf. Ég nefni hérna sérstaklega stafvæðingu opinberrar þjónustu. Svo verðum við líka að hafa það í huga, eins og hv. þingmaður kom reyndar inn á, að það hafa mörg störf tapast í einkageiranum, sem er í raun og veru bara eðli þessa faraldurs og ekki séríslenskt fyrirbrigði. Stóra spurningin var hvort við ætluðum að fara í uppsagnir á opinberum starfsmönnum og við ákváðum að gera það ekki, sem sagt ekki að fara í flatan niðurskurð í kreppu. En það hefur gerst víða um heim að störf töpuðust tímabundið í einkageiranum, en sem betur fer höfum við séð einkageirinn vera að ráða að nýju. (Gripið fram í.)