152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

efnahagslegar ráðstafanir vegna Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[15:52]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Frú forseti. Ég ætla að segja að almennt held ég að við getum verið þokkalega sátt við þá stöðu sem við blasir. Það hefði sennilega engan órað fyrir því í upphafi 21. aldarinnar að við ættum eftir að upplifa tvö jafn dramatísk áföll og við horfum til baka á núna, annars vegar bankahrunið 2008 og hins vegar þennan ótrúlega heimsfaraldur. Ég vil bara gefa ríkisstjórninni það að hún gerði sitt besta og fyrir mína parta treysti ég hæstv. fjármálaráðherra prýðilega vel til að halda utan um fjármál íslenska ríkisins. Ég held að hann hafi til þess bæði menntun, reynslu, getu og þekkingu. Auðvitað hafa ytri aðstæður, þrátt fyrir mótlæti, mótvindinn, verið okkur og eru okkur ótrúlega hagfelldar. Við erum mjög lánsöm að búa að þeim auðlindum sem hér eru. Þar er mannauðurinn kannski stærsta auðlindin. Við höfum borið gæfu til að fjárfesta í menntun, höfum borið gæfu til að fjárfesta í heilbrigðiskerfi og öllum þeim lykilatriðum sem skapa, við skulum segja nútímalegt velferðarsamfélag. Það eru að líkindum ekki mörg samfélög í heiminum sem hafa komist nær fullkomnun en íslenska samfélagið, þó að það sé að sjálfsögðu ekki gallalaust frekar en önnur fyrirbrigði í mannheimum. Ef það væri eitthvað sem ég myndi leggja til að við byggðum okkur undir þá væri það helst að það gæti undir engum kringumstæðum endurtekið sig að ein stofnun eða eitt fyrirtæki í landinu gæti haldið öllum hinum í einhvers konar gíslingu eða viðvarandi spennu. Þá á ég við blessaðan Landspítalann okkar sem hefur auðvitað verið að gera sitt besta, frábært starfsfólk og allt það og aukin framlög hafa komið þar til, en engu að síður er hann alltaf alveg á nippinu með að valda verkefninu. Mér hefur stundum orðið hugsað til 1918, spænsku veikinnar og frostavetursins og alls þessa. Við erum sem betur fer mun betur í stakk búin til að mæta slíku í dag en við vorum þá, en engu að síður er það stjórnarmál hvernig maður lætur einn spítala valda því mikla verkefni sem blasir við í svona heimsfaraldri. Ég veit um leiðir til að sjá til þess að það þurfi ekki að endurtaka sig að einn spítali sé þannig settur að hann ráði ekki við verkefnin og hann sé ítrekað á neyðarstigi.

En í ljósi þess sem við blasir, í ljósi þess sem ég sagði áðan, þá kom hér óvæntur búhnykkur, síðbúinn búhnykkur úr hruninu sem voru þessir 600 milljarðar, stöðugleikaframlag eða hvað það nú var, aðallega úr búum bankanna. Eins eru síðan ýmsar ytri aðstæður þannig að við getum horft til bjartrar framtíðar sem íslenskt samfélag. Þá segi ég: Vonandi er þessi faraldur nú að baki. Vonandi getum við farið að haga okkur eins og við gerðum fyrir faraldurinn. Þó að menn geta átt von á einhverju þriggja, fjögurra daga kvefi og jafnvel hósta eða einhverjum hliðarverkunum þá vil ég fara að horfa fram á hvað er brýnast að þessu afloknu. Auðvitað er alltaf samhengi á milli fjármagnsins og þess sem gert er og gert skal. Fyrir mína parta segi ég að það eru tvö afar brýn verkefni fyrir okkur sem viljum skila þjóðinni okkar og börnunum okkar og barnabörnum, afkomendunum, betra samfélagi en við tókum við í efnahagslegum skilningi, umhverfislegum og aðallega þó andlegum og sálrænum. Það er það sem ég nefndi áðan og ráðherrann hefur staðfest að sé nú þegar komið í farveg eftir margra ára fyrirheit, og það er heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu sem þvær vonandi af okkur þá þjóðarskömm sem stærst er í mínum augum og margra annarra, að skilja eftir jafn stóran hluta samfélagsins við fátæktarmörk í einu ríkasta samfélagi heimsins. Ég fagna þeim fréttum dagsins í dag að félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra séu búnir að sammælast um að hleypa því ferli af stað. Megi það ganga vel og farsællega og takast sem allra best og allra fyrst að leysa úr.

Hitt málið, sem ég vil ekki að börnin mín og barnabörnin mín og afkomendur þeirra þurfi að lifa með í önnur 25, 50, 75 eða 100 ár, eða hvað það verður, er þetta viðvarandi þrætuepli um eina af fjölmörgum auðlindum okkar. Þessi ágætlega heppnaða Verbúð sem við horfum á á sunnudögum, misgóðir þætti að sjálfsögðu eins og gengur, er afar gott dæmi um vel heppnaða framleiðslu ríkissjónvarps á einhverju sem við getum öll látið okkur varða. Það er svo stutt síðan refirnir voru skornir og kaupin gerðust á eyrinni um það hverjir mættu og hverjir fengju og hverjir ættu og allt þetta. Um það verður að óbreyttu deilt um aldur og ævi nema við höfum til þess þrek, dug og þor að fara í það að sætta sjónarmið. Ég bind vonir við það sem sjávarútvegsráðherra sagði áðan, að hún væri tilbúin í þá umræðu. Ég tel að almannatryggingakerfið getum við leyst tiltölulega fljótt og vel. Hitt er mun flóknara. Það er það megin-konflikt að útvegssjávarauðlindin er sameign allrar þjóðarinnar en í reynd samt sameign örfárra fjölskyldna. Við þurfum að hafa þrek til að setjast niður við borðið. Ég veit að mörg útvegsfyrirtæki treysta sér til að leggja meira af mörkum. Ég hef engar sérstakra spá um hvernig það á að vera. Ég segi bara, (Forseti hringir.) og bið fjármálaráðherra um að taka þátt í þeirri umræðu með okkur í þessum þankatanki sem er Alþingi, (Forseti hringir.) að við munum komast að farsælli niðurstöðu í þágu framtíðar fólksins á Íslandi.