152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

efnahagslegar ráðstafanir vegna Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:11]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Við höfum frá upphafi faraldursins og sóttvarnaaðgerða lagt mikla áherslu á þá einföldu en mikilvægu staðreynd að efnahagsaðgerðir og sóttvarnaaðgerðir haldist þétt í hendur, að þær verði að kynna samhliða, að tjón atvinnulífsins og fólksins í landinu verði bætt og fólk geti vitað hvers sé að vænta og hvenær þess sé að vænta, um leið og sóttvarnaaðgerðir eru kynntar. Við höfum talað um mikilvægi fyrirsjáanleika upp að því marki sem það hefur verið hægt og einhverja stefnu sem horfir til lengri tíma en tveggja og þriggja vikna. Ég held að nú megi segja, að tveimur árum liðnum í þessum faraldri, að hér er ríkisstjórnin að klikka. Það hefur sannarlega ríkt óvissa í faraldrinum sjálfum á þessum tveimur árum en það ríkir engin óvissa um það fyrir atvinnulífið að það verður fyrir tjóni þegar stjórnvöld setja því kvaðir sem valda tekjutapi. Og það er stundum eins og vanti upp á skilning á gangvirki atvinnulífs að þessu leyti, hvað það gerir fólki að búa mánuðum og árum saman í algjörri óvissu um afkomu.

Ríkisstjórnin hefur aftur og aftur beitt sömu sóttvarnaaðgerðum og nú liggur fyrir þekking á því hvaða efnahagsaðgerðir það eru sem virka. Ég nefndi um daginn, og ætla að fá að nefna það aftur, að í viðtali um mitt síðasta sumar sagði Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, frá því að stefnumótunarvinna væri farin af stað innan ríkisstjórnarinnar um framtíðarsýn í viðbrögðum við heimsfaraldrinum og ríkisstjórnin ætlaði að gefa sér tvær til þrjár vikur í það verkefni og kynna svo plan um hvernig ætti að lifa með Covid til lengri tíma litið. En svo heyrðist ekkert meir.

Hefði ríkisstjórnin fylgt þessum orðum sínum eftir væri vinnandi fólk, heimilin og fyrirtækin í landinu í ögn þægilegri stöðu og í ögn meiri vissu. Það lægi kannski fyrir einhver stefna um skólahald. Það lægi kannski fyrir einhver stefna um aðgerðir á sviði sóttvarna og hvers konar efnahagsaðgerðir fylgi í kjölfarið. Það lægi fyrir einhver sýn. Stefna um viðbrögð til lengri tíma litið hefði verið sterkur og mikilvægur leikur, en ríkisstjórnin kynnti aldrei þá sýn sem hún boðaði. Ég ætla að viðurkenna að ég gladdist mjög þegar ég heyrði hæstv. heilbrigðisráðherra lýsa því í dag að von væri á afléttingaráætlun ríkisstjórnarinnar á föstudag. Það er mikilvægt og jákvætt skref sem ég styð heils hugar og það held ég að almenningur geri líka. Það er auðvitað staðreynd að með frekari afléttingum verða þessar dýru efnahagslegu aðgerðir vitaskuld óþarfar.

Forseti. Mig langar til að fara yfir það umhverfi sem þjóðfélagið, atvinnulífið, heimilin og fyrirtækin, búa við og fara stuttlega yfir tímalínuna frá því í sumar. Við munum eftir því að þann 26. júní voru allar samkomutakmarkanir á Íslandi felldar úr gildi. Mánuði seinna voru þær teknar upp aftur. Þann 3. september voru kynntar nýjar reglur. Aðrar reglur voru kynntar 15. september. Afléttingar tóku gildi 20. október. Þann 5. nóvember var hert á takmörkunum. Þann 12. nóvember var aftur hert. Þessi óvissa eykur á erfiðleika og þið sjáið hve stutt er á milli breytinga á reglum hverju sinni. Eitt eru harðar reglur, en það eykur verulega erfiðleika fólks að hanga í þessari óvissu um hvað tekur við.

Ég vil líka vekja athygli á því að allan þennan tíma, frá júní og fram í desember, var þingið ekki starfandi. Ríkisstjórnin var starfandi án eftirlits þingsins vegna þess að ríkisstjórnin valdi haustkosningar og tók sér svo átta eða tíu vikur, eða hvað það nú var, til að mynda nýja ríkisstjórn. Þingið var ekki starfandi allan þennan tíma og 21. desember voru samkomutakmarkanir hertar enn frekar og nýtt ár hófst og þannig hélt þetta áfram. Þann 15. janúar var enn frekar hert og þetta er veruleikinn sem við lifum við í dag. Allan þennan tíma hefur fólkið í landinu ekki getað horft lengra fram í tímann en tvær til þrjár vikur, fram til næsta minnisblaðs, og ríkisstjórnin hefur á þessum tíma farið þá leið að bjóða fólki upp á það að kynna nýtt íþyngjandi regluverk, vissulega í þágu mikilvægra hagsmuna, sem fólk á að fara að vinna eftir, jafnvel bara strax á miðnætti næsta dags, en tekur sér sjálf vikur og jafnvel mánuði til að smíða tillögur um það hvernig eigi að mæta tapi fólks og fyrirtækja. Fyrirtækin eru skilin eftir í þeirri stöðu að eiga mögulega von á stuðningi sem þau vita þó ekki hver er og heldur ekki hvenær tekur gildi. Það er vonlaust að ætla að reyna að halda rekstri gangandi í svoleiðis umhverfi. Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar að þessu leyti hafa því beinlínis aukið á erfiðleikana.

Aðeins stuttlega um inntak aðgerða: Frestun gjalddaga er skref en lítið skref og veitir ekki haldmikla stoð. Það virðist t.d. allt veitingafólk vera sammála um það. Tekjufallsútreikningar eru ágætir fyrir suma rekstraraðila en gagnast öðrum mun síður. Veitingastaðir með stutta rekstrarsögu standa höllum fæti. Hlutabótaleiðin var það úrræði sem gagnaðist best í byrjun faraldursins til að styðja við atvinnulífið og starfsfólk aðila sem neyddust til að draga saman seglin. Ég held að ríkisstjórnin verði að líta til þess að styðja við þá atvinnurekendur sem hafa lagt sig fram um að viðhalda ráðningarsambandi, (Forseti hringir.) t.d. með styrk sem væri hlutfall af greiddum launum. En ég ætla að fá að ljúka orðum mínum á því að ég bind miklar vonir við þá afléttingaráætlun sem á að kynna á föstudag. Ég vona að hún verði skýr um hvaða skref verði stigin og hvenær, að það verði tímasett áætlun.