152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[16:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um tillögu til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Ég ætla ekki að lesa álitið upp í heild sinni en stikla á stóru og reyna að draga fram aðalatriði þess en vísa annars í hinn skrifaða texta. Hann liggur hér til grundvallar máli mínu og afstöðu okkar þingmannanna sem skrifum undir þetta nefndarálit.

Þingsályktunartillaga þessi er lögð fram í samræmi við 3. málslið 1. mgr. 2. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. Þar segir að ákveða skuli fjölda ráðuneyta og heiti þeirra með forsetaúrskurði, samkvæmt tillögu forsætisráðherra. Áður en forsetaúrskurður er gefinn út skal tillagan lögð fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu sem komi þegar til umræðu og afgreiðslu hjá þinginu. Með þessu fyrirkomulagi er tryggt að tillagan hljóti formlega og opna umræðu á Alþingi þar sem kjörnir fulltrúar þjóðarinnar fá tækifæri til að fjalla efnislega um þær breytingar sem forsætisráðherra hverju sinni leggur til að séu gerðar á æðstu yfirstjórn stjórnsýslunnar.

Samkvæmt þessu gekk málið eftir fyrri umræðu í þingsal til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem sendi það út til umsagnar og fékk þó nokkrar umsagnir og fjölmarga gesti á fund nefndarinnar til að ræða málið. Þar voru ýmis sjónarmið reifuð og ábendingum komið á framfæri. Fyrir þeim reynum við að gera grein í þessu nefndaráliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Til að draga málið örstutt saman má kannski segja að ekki hafi borist mikið af athugasemdum við þingsályktunartillöguna sjálfa, þ.e. um fyrirhugaða breytingu á fjölda og heitum ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, heldur var meira verið að viðra sjónarmið varðandi væntanlegan flutning á málefnum á milli ráðuneyta. Í umsögnum og fyrir nefndinni voru til að mynda gerðar athugasemdar við væntanlegan flutning nokkurra málefna til nýs mennta- og barnamálaráðuneytis. Þar komu m.a. fram áhyggjur af því að málefnum framhaldsskólanna hefðu ekki verið gerð nægilega góð skil í greinargerð þingsályktunartillögunnar og voru reifaðar áhyggjur af nemendum framhaldsskólanna sem eru eldri en 18 ára, sem og af stöðu verk- og starfsnáms.

Við í meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar viljum taka það fram að þær breytingar sem lagðar eru til með stofnun nýs mennta- og barnamálaráðuneytis eru til samræmis við aukna áherslu ríkisstjórnarinnar á málefnum barna. Málefni framhaldsskólanna í heild sinni færast þó til hins nýja mennta- og barnamálaráðuneytis. Við áréttum mikilvægi framhaldsskólastigsins og brýnum fyrir ráðherra mennta- og barnamála að tryggja öflugt samráð og samvinnu við framhaldsskólana.

Þá eru einnig reifuð sjónarmið með og á móti flutningi Ráðgjafar- og greiningarstöðvar til mennta- og barnamálaráðuneytis. Þar kom fram að engin rök hefðu verið sett fram fyrir því að flytja hana frá ráðuneyti félagsmála þar sem mikil þekking á málaflokknum hefði byggst upp. Fyrir nefndinni komu þó fram þau sjónarmið að í ljósi þeirrar höfuðáherslu sem lögð hefði verið á farsæld barna í hinu nýja mennta- og barnamálaráðuneyti væri eðlilegt að Ráðgjafar- og greiningarstöðin, sem þjónustar fyrst og fremst börn með alvarlegar þroskahamlanir og fjölskyldur þeirra, myndi flytjast til ráðuneytisins. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið að rétt sé að Ráðgjafar- og greiningarstöðin flytjist til mennta- og barnamálaráðuneytisins, en við áréttum að gætt verði að því að sú þekking og reynsla sem byggst hefur upp í félagsmálaráðuneytinu á þeim málaflokki glatist ekki við þann flutning.

Talsvert var rætt í meðförum nefndarinnar um aðkomu starfsfólks Stjórnarráðsins. Við teljum mikilvægt að hafa í huga að það er forsætisráðherra að taka ákvörðun um skipan Stjórnarráðsins og hann hefur í þeim efnum sér til ráðgjafar sitt ráðuneyti. Í því felst sú ábyrgð að tryggja að skipulag Stjórnarráðsins sé þannig að það fái sinnt skyldum sínum og sé sem best í stakk búið til að innleiða stefnumótun stjórnvalda hverju sinni. Það er jú í raun það sem hæstv. forsætisráðherra er að ítreka með framlagningu máls þar sem verið er að skipta málefnum upp.

Við í meiri hlutanum bendum á að allar breytingar í rekstri hafa áhrif á starfsfólk og breytingar valda oft óvissu um störf og hvernig framtíðin er. En með því að vinna vel að þessu verkefni er hægt að ná fram markmiði ríkisstjórnarinnar um skiptingu ráðuneyta, en auðvitað einnig að huga að stöðu starfsfólksins. Ekkert annað kom fram í umfjöllun nefndarinnar en að það yrði gert. Það fannst mér koma skýrt fram í meðförum okkar á málinu.

Í nokkrum umsögnum komu fram sjónarmið um að með breytingunum yrðu eðlislík stjórnarmálefni og stofnanir færð á mismunandi ráðuneyti. Var sem dæmi nefndur flutningur háskólastofnana frá mennta- og menningarmálaráðuneyti til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis annars vegar og menningar- og viðskiptaráðuneytis hins vegar. Stofnanirnar hefðu mikla samlegð og mikið samstarf væri þeirra á milli.

Að mati meiri hlutans ræður það eitt almennt ekki úrslitum um hvort framkvæmd stjórnarmálefna sé árangursrík og skilvirk að þau heyri undir eitt og sama ráðuneytið. Þvert á móti kunna hinir ósýnilegu múrar stofnanamenningar að þrífast milli skrifstofa innan ráðuneytis rétt eins og á milli ráðuneyta. Að mati meiri hlutans skiptir meira máli að innan Stjórnarráðsins fari fram virk samvinna og samstarf. Er það sérstaklega mikilvægt í jafn litlu stjórnsýslukerfi og hinu íslenska. Að okkar mati er brýnt að þær umfangsmiklu breytingar sem felast í þingsályktunartillögunni séu nýttar til að efla samvinnu, samráð og samstarf þvert á ráðuneyti til að tryggja að þekking og mannauður Stjórnarráðsins séu nýtt til fulls. Og raunar kom það fram í umræðum um málið innan nefndarinnar að færa má rök fyrir því að mál geti átt heima á fleiri en einum stað. Það snýst svolítið um út frá hvaða sjónarhorni mál er skoðað hverju sinni. En hið góða samtal og samstarf skiptir gríðarlega miklu máli til að vel takist til.

Líkt og ég sagði hér í upphafi barst nefndinni fjöldi umsagna þar sem ýmis sjónarmið voru reifuð. Ég held að það sé mikilvægt, líkt og ég er búin að gera grein fyrir hér, að reifa þessi sjónarmið, þá hafi Stjórnarráðið þær til hliðsjónar og sjái hvar það er sem koma fram ábendingar, til að mynda um að passa þurfi sérstaklega að upplýsingar flæði á milli, því að þannig er líklegast að breytingarnar takist vel, og það hlýtur jú að vera uppleggið.

Eins og fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni er fjölgun ráðuneyta úr tíu í tólf og breyting á heitum þeirra lokaáfangi í umfangsmiklum breytingum á skipulagi Stjórnarráðs Íslands. Tvö ný ráðuneyti verða til með tilheyrandi endurskipulagningu málefna og breytingar verða á heitum annarra í takt við nýjar áskoranir og flutning stjórnarmálefna til eða frá þeim. Þetta mun krefjast öflugrar verkstjórnar. Við teljum því mikilvægt, vegna þess að verkefnið er veigamikið, að nefndinni sé haldið upplýstri um gang mála og fái stöðumatsskýrslu. Við leggjum til að það verði eigi síðar en 1. maí nk., þar sem farið verði yfir framgang breytinganna, áskoranir sem upp hafa komið og hvernig þeim verður mætt. Þetta er mikilvægt að gera, tel ég, því að mér finnst mikilvægt að hver ríkisstjórn geti hagað skiptingu Stjórnarráðsins þannig að hún nái fram markmiðum sínum í starfi. En þar sem hér er um miklar breytingar að ræða er mikilvægt að við fáum upplýsingar um einmitt þær áskoranir sem koma upp í því mikilvæga og veigamikla verkefni.

Við í meiri hlutanum leggjum til að tillagan verði samþykkt.

Undir þetta nefndarálit rita, ásamt þeirri sem hér stendur, hv. þingmenn Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.